Vegamálun hjá Vegagerðinni

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:02:18 (6086)

2001-03-28 14:02:18# 126. lþ. 101.3 fundur 538. mál: #A vegamálun hjá Vegagerðinni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:02]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Áður en ég tek til við að svara fyrirspurninni vil ég að sjálfsögðu geta þess að það er margt verkið að vinna og ráðherra sem er búinn að vera í tvö ár er kannski ekki búinn að koma öllum hugðarefnum sínum í verk þó að vel sé að verki staðið.

Spurningarnar eru þrjár. Ráðuneytið hefur leitað upplýsinga frá Vegagerðinni til þess að svara þeim. Áður en þeim verður svarað verður að gera stutta grein fyrir stöðu þessara mála, þróun undanfarið og horfum fram undan, vegna þessarar fyrirspurnar.

Með tilkomu bundins slitlags þurfti að mála það til afmörkunar á akreinum og þess háttar. Vegagerðin keypti málningarbíl sem notaður hefur verið í þessum tilgangi og hefur Vegagerðin annast meginhluta vegmálunar alla tíð. Á hinum umferðarmeiri vegum endist málningin illa og því var farið að leita nýrra leiða. Málning verður þó áfram notuð á umferðarminni vegi og í kantlínur.

Árið 1995 var byrjað að nota plastefni, svokallaðan sprautumassa til yfirborðsmerkingar. Kostir sprautumassans umfram málningu eru betra endurskin og mun meiri ending, einkum gagnvart nagladekkjum. Áætlanir Vegagerðarinnar miða við að notkun sprautumassa aukist í framtíðinni á kostnað málningar.

Tveir verktakar hafa frá upphafi annast þetta verkefni fyrir Vegagerðina á grundvelli samninga, í fyrstu án útboðs en seinni árin á grundvelli útboðs. Auk Vegagerðarinnar eru það einkum sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem þurfa á svona þjónustu að halda. Markaðurinn er í heild lítill og því hefur þróun til betri vinnubragða, bættrar tækni og meiri gæða verið hæg. Kemur þar aðallega tvennt til. Verktakar eru smáir og eins hefur þeim gengið misjafnlega að halda í mannskap í þeirri þenslu á vinnumarkaði sem verið hefur að undanförnu.

Vegagerðin fól Iðntæknistofnun að gera úttekt á gæðum merkinganna og samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er þeim að einhverju leyti áfátt.

Í ljósi þess sem hér er rakið hefur Vegagerðin talið nauðsynlegt að gera átak til að koma sprautumössun í gott horf með kaupum á tækjum í því skyni að hætta í staðinn útgerð málningarbíls, selja hann og setja málningarvinnuna á markað. Ég hef ekki gert athugasemdir við þá ákvörðun Vegagerðarinnar.

Fyrirspurn þingmannsins var í þremur liðum. Fyrst var spurt: ,,Hve mikið af vegamálun er boðið út hjá Vegagerðinni og hve mikið framkvæmir Vegagerðin sjálf?`` Þegar hefur verið samið við verktaka um að vinna 900 km í sprautuplasti á þessu ári. Áætlað er að Vegagerðin framkvæmi um 400 km í sprautuplasti. Auk þess verða boðnir út um 1.800 km í vegmálun. Á næstu árum mun mössunin aukast eins og áður var nefnt og a.m.k. fyrst í stað mun aukningin falla undir flokk Vegagerðarinnar.

Í öðru lagi var spurt: ,,Hver er núverandi tækjakostur Vegagerðarinnar í vegamálun?`` Vegagerðin á einn gamlan málningarbíl og ég undirstrika það að stefnt er að því að hætta þeirri starfsemi.

Í þriðja lagi spurði þingmaðurinn: ,,Ætlar Vegagerðin að fjárfesta í nýjum tækjabúnaði fyrir vegamálun? Ef svo er, hvað kostar hann, hvenær kemur hann til landsins og hvernig verður fyrirkomulag vegamálunar hjá Vegagerðinni í framtíðinni?`` Ákveðið hefur verið að kaupa bíl og tækjabúnað á hann fyrir yfirborðsmerkingar með sprautumössun eins og fram kom fyrr. Bíllinn kostar fullbúin um 30 millj. kr. kominn til landsins í júní nk. Málningarbíllinn verður hins vegar seldur og mun vegmálun verða boðin út eins og áður kom fram. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar munu umsvif Vegagerðarinnar í vegmerkingu því ekki aukast þó að þessi áherslubreyting sé gerð heldur fremur hið gagnstæða.

Til þess að undirstrika það sem ég hef áður sagt þá er það vilji minn að Vegagerðin, þar sem þau ráð koma fram og góður rökstuðningur fylgir, dragi sig út af þessum samkeppnismarkaði en ég tel að færð hafi verið fullgild rök fyrir þeim ákvörðunum sem hér hefur verið lýst.