Vikurnám við Snæfellsjökul

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 15:03:36 (6112)

2001-03-28 15:03:36# 126. lþ. 101.8 fundur 561. mál: #A vikurnám við Snæfellsjökul# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi JÁ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[15:03]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það kemur skýrt fram að vikurvinnsla er í gangi þarna og var á síðasta ári og ég veit ekki betur en að hugmyndin sé að hún haldi áfram.

Ég tel að minnsta kosti dálítið undarlegt að það umhverfismat sem fór af stað vegna þessa fyrirtækis skuli ekki hafa gengið til enda. Mér finnst það ekki ganga og alveg sérstaklega í ljósi þess að vonandi og sem allra fyrst verði þarna til þjóðgarður um Jökulinn. Og einmitt þar sem flestir ferðamenn koma að Jöklinum fer þessi námavinnsla fram. Ég held að óhætt sé að segja að það hafi orðið nóg af slysum í kringum þessa vinnslu hvað umhverfismál varðar, því svo sannarlega var engin þörf á að bæta við leyfum á sínum tíma og búa til nýjar námur sem reyndust ónothæfar vegna þess að þær höfðu ekki verið rannsakaðar nógu vel á sínum tíma og ekki skynsamlegar til nýtingar. Þess vegna er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að þarna haldi áfram einhver starfsemi nema menn hafi tekið á þeim vandamálum sem þeir hafa séð við þetta umhverfismat. Og ég er ekki viss um að séð verði fyrir endann á þessu.

Ég vil því biðja hæstv. ráðherra að svara því þótt mér sé fullkunnugt um að hæstv. ráðherra veitir ekki þessi leyfi, þá hlýtur hæstv. ráðherra að hafa veruleg áhrif á það og þær stofnanir sem hún hefur yfirráð yfir, að þessi mál gangi ekki fram með þeim hætti sem þarna er, að Skipulagsstofnun sem búin er að úrskurða sé virt að vettugi og að ekki sé haldið áfram með málið og það sé ekki klárað.