Þjóðhagsstofnun

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 10:42:34 (6141)

2001-03-29 10:42:34# 126. lþ. 102.91 fundur 436#B Þjóðhagsstofnun# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[10:42]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég hef oftar en ekki gagnrýnt Þjóðhagsstofnun fyrir að þjóna ríkisvaldinu um of og talið að hún hafi ekki sýnt nægilegt sjálfstæði gagnvart ríkisstjórn sem hún á lögum samkvæmt að vera til ráðgjafar. Að sönnu á hún lögum samkvæmt einnig að vera Alþingi til ráðgjafar en hún heyrir undir forsrn. og á allt sitt undir því hvernig vindarnir blása þar á bæ.

Nú bregður svo við að frá Þjóðhagsstofnun kemur úttekt sem varpar gagnrýnna ljósi á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar en við eigum að venjast. Hvað gerist þá? Forsrh. er samstundis mættur í fjölmiðla til að lýsa því yfir að til standi að leggja stofnunina niður. Allt hlýtur þetta að verða okkur umhugsunarefni og þá hvernig komið er fyrir lýðræðinu í landi okkar, hvernig valdhafar fara með vald sitt. Við hljótum einnig að skoða þetta í ljósi annarra atburða.

Það er full ástæða til að ræða þetta mál undir þessum dagskrárlið, um störf Alþingis, vegna þess að hvernig sem á málin er litið kemur þetta Alþingi við. Í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði finnst okkur eðlilegt að sá kostur verði kannaður að efla Þjóðhagsstofnun sem sjálfstæðan aðila sem heyri beint undir Alþingi. Það er lýðræðinu til góðs að hafa sem flesta aðila til að varpa ljósi á efnahagsmál þjóðarinnar. Forsenda þess er að sjálfsögðu sú að þessi stofnun verði losuð undan hæl manna sem virðast ekki alltaf kunna fótum sínum forráð á vettvangi lýðræðislegra samskipta.