Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 11:27:03 (6148)

2001-03-29 11:27:03# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[11:27]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir ræðuna. Ég ætla þó ekki að nota tækifærið til að finna að eða ræða tiltekin atriði ræðunnar heldur vil ég taka upp eitt atriði sem hefur verið ofarlega á baugi á Norðurlöndunum og braust í gegnum fréttir á Íslandi í morgun.

Í Ríkisútvarpinu í morgun var frá því greint að núna stæðu yfir samningaumleitanir milli Japans og Rússlands um tiltölulega umfangsmikla flutninga á geislavirkum úrgangi um Íshafið og að lokum niður Grænlandssund milli Íslands og Grænlands. Við vitum, herra forseti, að á þessu svæði er stöðugur ís. Það er bæði lagís og borgarísjakar. Það er hættulegt að fara um þetta svæði, enda er það svo að Japanir hyggjast stunda slíka flutninga fyrir atbeina rússneskra ísbrjóta. Það segir sitt um stöðuna á þessum hafsvæðum.

Sigurður Magnússon, forstöðumaður Geislavarna ríkisins, sagði í útvarpi í morgun að þessir flutningar gætu verið ákaflega varasamir og hann tók svo djúpt í árinni að segja að ef einhvers konar slys yrðu meðan á þessum flutningum stæðu gæti það stórskaðað efnahagslega hagsmuni Íslendinga. Mig langar þess vegna að nota tækifærið, herra forseti, og að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann viti af þeim samningaumleitunum. Hvort utanrrn. hafi gripið til einhverra viðbragða og með hvaða hætti hann hyggst reyna að beita afli íslensku utanríkisþjónustunnar til þess að koma í veg fyrir að af þessum flutningum verði.

Mér er kunnugt um, herra forseti, að Norðmenn hafa lagst harkalega gegn þessum flutningum og fram hefur komið að af þeim sökum er leið þessara skipa um Grænlandssund en ekki suður með Noregi. Utanríkisþjónustan hefur áður sýnt viðbragðsflýti þegar á hefur þurft að halda og þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Er hann þegar farinn af stað til að reyna að leggja stein í götu þessara skelfilegu áforma?