Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 14:11:19 (6178)

2001-03-29 14:11:19# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[14:11]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Sú skýrsla sem skilað var af hálfu Framsfl. um Evrópumál er ekki hér til umræðu. En hún er löngu komin fram og er aðgengileg, hvort heldur á netinu eða annars staðar og ég reikna með því að hv. þingmaður hafi kynnt sér hana. Þar er að sjálfsögðu m.a. fjallað um evru-málin og þær miklu hræringar sem nú eru í peningamálum í heiminum. Ég ætla ekki að fara að fjalla sérstaklega um þau en er sammála hv. þingmanni um að sá mikli vaxtamunur sem er annars vegar hér á landi og í helstu samkeppnislöndum okkar, er mikið áhyggjuefni fyrir framtíð íslenskra atvinnuvega. Hvernig komið verður til móts við þann mikla vanda er flókið mál. Ríkisstjórnin hefur nýlega breytt um stefnu í vaxta- og gengismálum. Það held ég að sé skref í rétta átt og verði til þess að treysta stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Ég tek undir það með hv. þm. að það þarf að halda áfram að fjalla um þessi mál, en vek hins vegar athygli á því að aðild að evrunni verður eingöngu í gegnum aðild Íslands að Evrópubandalaginu. Það er staðreynd sem mikilvægt er að hafa í huga þegar fjallað er um þessi mál.