Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 15:28:24 (6218)

2001-04-02 15:28:24# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., Flm. GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[15:28]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það er mikill tilgangur í að eiga orðastað við hv. þm. um þetta efni. Ég færi bara út í að endurtaka orð mín.

Hins vegar var frv. haft stutt og afdráttarlaust til þess að hv. þm. skildu það. Það virðist ekki hafa dugað til.

Við erum auðvitað ekki að ræða um leikskóla. Það er ekki skólaskylda í leikskólum. Það er ekki skólaskylda í framhaldsskólum. Það er ekki skólaskylda í háskólum. Það er skólaskylda í grunnskólum. Þar skilur á milli. Ég þarf vonandi ekki að endurtaka það.

Herra forseti. Auðvitað væri þetta mál lítið í sniðum. Það væri hægt að leysa heima í héraði ef eingöngu væri um að ræða einn hverfisskóla í Hafnarfirði með einhverja tugi nemenda. Auðvitað er það ekki. Hér er verið að opna nýja vídd, opna nýja gátt. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að standi vilji sveitarstjórna annars staðar til þess að gera slíkt hið sama, og standi vilji Sjálfstfl. hér á hinu háa Alþingi og á landsvísu til þess að markaðsvæða grunnskólann, þá er sú hætta fyrir hendi að það verði hin almenna regla en ekki undantekning í einhverri tilraun eða þróunarstarfi.

Ég gat um það áðan að við þekkjum allt of vel, herra forseti, hvernig Sjálfstfl. stendur að verki þegar frjálshyggjunni er laumað inn bakdyramegin. Mér dettur ekki í hug eitt andartak að annað sé uppi á teningnum í þessu máli frekar en fyrri daginn. Hér eru hafnfirskir íhaldsmenn aðeins undanfarar og það á að markaðsvæða á fleiri sviðum og víðar um landið. Í því liggja áhyggjur mínar. Að öðru leyti gætum við séð um þessi mál suður í Hafnarfirði og væri vandalítið ef vandamálið væri staðbundið. Svo er þó ekki, því er nú verr og miður, og hv. þm. staðfesti það með andsvari sínu.