Grunnskólar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 17:06:42 (6234)

2001-04-02 17:06:42# 126. lþ. 103.1 fundur 450. mál: #A grunnskólar# (útboð á skólastarfi) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[17:06]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja mikið þá ágætu umræðu sem hér fer fram eftir ákveðnu samkomulagi sem gert hefur verið. Ég vil segja að hér er ákaflega brýnu máli hreyft sem hv. 1. flm. þess, Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, flutti og fylgdi því vel úr hlaði. Þetta frv. er flutt til að koma í veg fyrir að sveitarstjórnir framselji öðrum ábyrgð og framkvæmd skólastarfs og kennslu.

Herra forseti. Þetta er ákaflega mikilvægt og eftir því sem maður hlustar og les meira um þetta mál og þá sérstaklega þegar maður hugsar til þeirra framsóknarmanna sem ég sakna því miður úr þingsalnum í dag, þeirra tveggja hv. þm. sem eiga sæti í menntmn., Ólafs Arnar Haraldssonar, varaformanns menntmn., og hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem eru ekki hér. Það er náttúrlega dálítið sérstakt að þeir skuli ekki láta sjá sig, að Framsfl. skuli í raun og veru hálfpartinn skila auðu í umræðunni og láti ekkert sjá sig. Það styður það sem maður hefur stundum haldið fram að Framsfl. sé orðinn hálfgert B-deildarskírteini í Sjálfstfl., og að Sjálfstfl. muni teyma framsóknarmenn áfram á hinu háa Alþingi alveg eins og þeir gera í bæjarstjórn Hafnarfjarðar nú um þessar mundir.

Ég segi þetta vegna þess að þegar skoðað er hvað forustumenn Framsfl. hafa sagt í þessum efnum er ákaflega skrýtið að þetta skuli eiga að ganga fram en styður jafnframt að þetta mál hljóti að fá góðan og farsælan endi í hv. menntmn. þar sem framsóknarmenn hljóta að styðja þetta á hinu háa Alþingi, enda er sagt að formaður Framsfl., hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson, hafi lýst sig algjörlega andvígan þessari hugmyndafræði. Sama má segja um nýkjörinn varaformann Framsfl., hæstv. landbrh. Guðna Ágústsson, en hann sagði m.a. í blaðaviðtali, með leyfi forseta:

,,Ég tel að stefna Framsóknarflokksins sé alveg skýr. Ríki og sveitarfélög skulu bera ábyrgð og reka grunnskólana og sjúkrahúsin. Einkavæddir grunnskólar og útboð á kennslu eru ekki á dagskrá Framsóknarflokksins``

Og það er það sem hér er verið að fjalla um. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar ætlar að einkavæða ákveðinn grunnskóla og fara þessa leið. Það er líka stutt af hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni, varaformanni menntmn., sem telur að þetta sé einkavæðing og að hér sé verið að fara einkavæðingarleið í nafni einhverrar tilraunar. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson segir m.a. í blaðaviðtali, með leyfi forseta:

,,Einkaaðilarnir eru að sjálfsögðu að leita eftir hagnaði og hættan er sú að þeir hirði bestu bitana en samfélagið sitji uppi með þá sem eiga erfiðara uppdráttar og eru efnaminni.``

Herra forseti. Ekki þarf fleiri meðmæli með þessu frv. sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson er 1. flm. að en þær tilvitnanir sem ég hef haft eftir formanni og varaformanni Framsfl. og varaformanni hv. menntmn. sem hefur sagt þetta.

Það er alveg með ólíkindum að menn skuli ætla að fara þessa leið í Hafnarfirði. Þess vegna segi ég, herra forseti, að lokum að ég tel að framsóknarmenn í menntmn. ættu að leggja sig fram við að hleypa þessu máli í gegn og stuðla að því að það komi til atkvæða vegna þess að þessa vinnu, þessa tilraunastarfsemi, þessa einkavæðingu grunnskóla í Hafnarfirði ber að stöðva sem allra fyrst.