Útbreiðsla spilafíknar

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 17:18:45 (6237)

2001-04-02 17:18:45# 126. lþ. 103.3 fundur 250. mál: #A útbreiðsla spilafíknar# þál., 380. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (söfnunarkassar) frv., 381. mál: #A söfnunarkassar# (viðvörunarmerki o.fl.) frv., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[17:18]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram eru tekin sameiginlega til umræðu þrjú tengd þingmál, þáltill. um nefndarskipun til að stemma stigu við útbreiðslu spilafíknar og tvö frv. til breytinga á lögum, annars vegar lögum um söfnunarkassa, nr. 73/1994, hins vegar lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, með síðari breytingum.

Á undanförnum þingum hafa verið lögð fram ýmis þingmál sem tengjast þessu alvarlega þjóðfélagsmeini, spilafíkn og fjárhættuspilum. Má þar nefna frv. til laga um að banna spilakassa, en ekkert þessara þingmála hefur hlotið afgreiðslu þrátt fyrir að flestir viðurkenni þann alvarlega þjóðfélagsvanda sem spilafíknin skapar.

Þáltill. sú sem hér er til umræðu hefur legið fyrir þinginu frá 15. nóv. sl. en er nú fyrst tekin á dagskrá. Í tillögunni er gert ráð fyrir að Alþingi skipi nú þegar nefnd með fulltrúum allra þingflokka og feli henni að afla greinargóðra upplýsinga um útbreiðslu spilafíknar meðal Íslendinga og kanna umfang þeirra eigna og fjármuna sem viðkomandi hafa fórnað. Þá skal nefndinni falið að finna úrræði til að leysa vanda einstaklinga og fjölskyldna sem búa við þennan alvarlega sjúkdóm og leita leiða til að hefta útbreiðslu hans.

Að þáltill. standa alþingismenn úr öllum flokkum sem sæti eiga á Alþingi. Auk mín eru flutningsmenn hv. þm. Drífa Hjartardóttir, Gísli S. Einarsson, Hjálmar Árnason og Sverrir Hermannsson.

Varðandi frumvörpin er það að segja að einnig koma þar að máli hv. þingmenn úr öllum þingflokkum á Alþingi. Auk mín standa að frv. tveimur hv. þm. Gísli S. Einarsson, Hjálmar Árnason, Katrín Fjeldsted og Sverrir Hermannsson. En hér er gert ráð fyrir því að þeim sem reka söfnunarkassa verði gert skylt að koma fyrir á áberandi stað á kössunum viðvörunum um þær hættur sem geta stafað af fjárhættuspilum.

Í öðru lagi er þeim sem reka söfnunarkassa gert skylt að standa straum af kostnaði við neyðar- og ráðgjafarþjónustu fyrir þá sem haldnir eru spilafíkn og skal vakin athygli á þeirri þjónustu með áberandi hætti á kössunum sjálfum.

Þessi frv., svo ég bæti því nú við og botni þetta, lúta annars vegar að breytingu á lögum um söfnunarkassa, nr. 73/1994, og hins vegar lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, með síðari breytingum.

Þeir sem hagnast á spilakössunum, sem eru aðstandendur Íslenskra söfnunarkassa, þ.e. Rauði kross Íslands, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann og síðan Háskóli Íslands, hafa miklar tekjur af þessum kössum. Á árinu 1998 voru tekjur þessara aðila að frádegnum vinningum og kostnaði rúmur milljarður kr., milljarður í hreinan hagnað, 1.069 millj. Þá kom einnig fram í upplýsingum við fyrirspurn sem ég beindi til hæstv. dómsmrh. að á fyrri hluta ársins 1999 hefði hagnaður þessara aðila, hreinn hagnaður, verið 582 millj. sem bendir til þess að hagnaðurinn hafi farið vaxandi. Þetta eru miklir fjármunir þannig að úr talsverðu fé er að spila ef þessum aðilum yrði gert að standa straum af forvarnastarfi og að reka símaþjónustu.

Ég hef talað fyrir því oftar en einu sinni úr þessum ræðustól að ég telji rétt að banna þessa kassa algjörlega --- þeir eru núna um 1.000 talsins á um 370 stöðum í landinu --- en það hefur ekki fengið hljómgrunn á Alþingi. Málinu hefur ítrekað verið vísað til nefndar þar sem það hefur verið svæft svefninum langa.

Nú vil ég ásamt þeim þingmönnum sem eiga aðild að þessum þingmálum, bæði frv. og þáltill., leita nýrra leiða til að þoka málum áleiðis. Ég segi það mjög ákveðið að öll skref sem stigin eru fram á við í forvarnaskyni eða til að koma í veg fyrir að börn og unglingar ánetjist spilafíkninni eru til góðs og allt forvarnastarf finnst mér af hinu góða að sjálfsögðu þótt ég vildi sjálfur ganga heldur lengra en fram kemur í þessum þingmálum.

Ég legg áherslu á að mjög mikilvægt er að tekið verði á þessum málum á þverpólitískum nótum, þetta er ekki flokkspólitískt mál, fulltrúar allra flokka koma að þessum málum. Ég vil einnig að það komi mjög skýrt fram að þeir aðilar sem standa að spilakössunum sinna allir þjóðþrifamálum og mikilvægum verkefnum og að sjálfsögðu þarf að finna þeim tekjustofna ef þessir tekjustofnar yrðu skertir. En forgangsröðun mín er sú að okkur beri að leita allra leiða til að stemma stigu við þessu.

Nefndar hafa verið ýmsar tölur um hversu útbreiddur þessi vandi er. Í grg. með þáltill. er nefnd talan 12.000, að samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið víðs vegar um heiminn megi ætla að um 4--5% þjóðar séu í áhættuhópi. Gerðar hafa verið ýmsar kannanir á þessu. Nefndar hafa verið aðrar tölur, 4--7%, jafnvel 4--7,5% og síðan hafa einnig verið birtar kannanir þar sem slíkir hópar eru fámennari. Fyrir fáeinum dögum birtu Íslenskir söfnunarkassar niðurstöður Gallup-könnunar sem gerð var fyrir þessa aðila þar sem því var haldið fram, sérstaklega í fréttaumfjöllun í kjölfar þess að niðurstöður voru birtar, að tölurnar fyrir Ísland væru mun lægri en haldið hefði verið fram, m.a. af þeim sem hér stendur, eða 0,6%. En staðreyndin er sú að þegar gögnin eru skoðuð er verið að tala um nákvæmlega sömu niðurstöður og hafa komið fram annars staðar. Spurningin er alltaf sú á hvaða forsendum kannanir eru gerðar. Það sem gert var í þessari könnun var að hringt var í 1.500 manns. 425 svöruðu ekki, það voru aðeins um 1.000 manns sem svöruðu. Af þeim sem svöruðu neituðu 20% að svara og ég held að það hafi verið Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir SÁÁ, sem sagði í Kastljósi Ríkisútvarpsins þar sem fjallað var um þessa könnun, að þetta væri nú ekki sérlega vel fallið til þess að leiða í ljós hver vandinn væri, fólk vildi leyna slíkum lesti, þessari fíkn sinni. Hins vegar sýndi þetta ágætlega fram á spilahegðun þeirra sem hefðu á annað borð ánetjast þessu.

Í gögnum í þessari könnun er spurt um hversu algeng spilafíkn sé á Íslandi og kemur fram að 7,7% er ,,hætt við áráttu``. Þetta er í takt við það hlutfall sem ég vísaði til áðan. Og samsvarandi kannanir sem hafa verið gerðar í Bandaríkjunum hafa leitt svipaðar hlutfallstölur í ljós.

Við sem stöndum að þessum þingmálum kusum í grg. að vera svona heldur íhaldssöm í hlutfallsreikningum okkar og studdumst þess vegna við 4--5% og fengum þess vegna þennan fjölda út, 12.000 manns. En þetta eru þeir sem er hætt við áráttu.

[17:30]

Á fræðimáli er talað um fíkla til lífstíðar. Kannanir sem gerðar hafa verið víða um heim hafa leitt í ljós að þeir séu í kringum 1%, frá 0,6--1,5%, þ.e. fólk sem er háð þessu til lífstíðar. Könnunin frá Íslenskum spilakössum leiddi í ljós að þetta hlutfall væri 0,6% á Íslandi. Það mundi þýða 1.500--1.700 einstaklinga, sem mér finnst óhugnanleg tala, að 1.700 einstaklingar séu í þessum hópi. Að sjálfsögðu snertir málið fleiri en nemur þessum fjölda. Þessir einstaklingar eiga fjölskyldur og eins og við vitum eru þess allt of mörg dæmi að lífi fólks hafi hreinlega verið rústað vegna spilafíknar.

Ég ætla ekki að hafa um þetta langt mál. Ég vona að breið pólitísk samstaða skapist um að taka á þessum málum í þeim anda sem við leggjum til. Ég endurtek að við erum í fyrsta lagi að leggja til að sest verði yfir það í nefnd sem allir stjórnmálaflokkar eigi aðild að með hvaða hætti við getum spornað gegn spilafíkn og hvernig megi stemma stigu við útbreiðslu hennar. Í frumvarpsformi er sú skylda hins vegar lögð á herðar þeim sem reka söfnunarkassa að koma fyrir á áberandi stað viðvörun um þær hættur sem geta stafað af fjárhættuspilum auk þess að standa straum af kostnaði við neyðar- og ráðgjafarþjónustu fyrir þá sem haldnir eru þessari fíkn.