Villtur minkur

Mánudaginn 02. apríl 2001, kl. 18:51:44 (6251)

2001-04-02 18:51:44# 126. lþ. 103.11 fundur 334. mál: #A villtur minkur# þál., Flm. ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 126. lþ.

[18:51]

Flm. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna sérstaklega þeirri ræðu sem hv. þm. Daníel Árnason flutti hér og því að hann skuli velja þetta mál til flutnings á jómfrúrræðu sinni í þinginu. Ég veit, þar sem ég þekki til hans, að hann kemur úr þeirri átt að þekkja glöggt til þess sem við ræðum hér, íslenskrar náttúru, nytja hennar og þess skaða sem minkurinn veldur.

Ég vildi sérstaklega taka undir það sem hv. þm. nefndi um að ná til sem flestra aðila hvað þetta mál varðar, ekki aðeins þeirra sem við töldum upp sem tiltæka í nefndina heldur mætti líka fá skotveiðimenn og aðra til að taka þátt í þessari vinnu.