Bætt umferðaröryggi á þjóðvegum

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 19:11:08 (6310)

2001-04-03 19:11:08# 126. lþ. 104.39 fundur 528. mál: #A bætt umferðaröryggi á þjóðvegum# þál., Flm. ÁRÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[19:11]

Flm. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. sem liggur frammi á þskj. 824, um bætt umferðaröryggi á þjóðvegum landsins. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Drífa Hjartardóttir, Vilhjálmur Egilsson, Gísli S. Einarsson, Sigríður Jóhannesdóttir, Guðjón Guðmundsson og Guðmundur Hallvarðsson.

Tillögugreinin segir svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að bæta skuli umferðaröryggi á þjóðvegum með því að:

a. efla og auka umferðarlöggæslu,

b. auka fræðslu og efla annað starf sem miðar að bættri umferðarmenningu.``

Tilgangur tillögunnar er að bæta öryggi umferðar og vegfarenda á þjóðvegum með því að efla og auka annars vegar löggæslu og hins vegar fræðslu og annað starf sem miðar að bættri umferðarmenningu.

Á síðasta vetri urðu mjög alvarleg umferðarslys sem rakin voru að jafnaði til mikils ökuhraða, meiri en aðstæður leyfðu, og þess að ökumenn urðu fyrir truflun eða höfðu ekki næga athygli og aðgát. Þessi tillaga er lögð fram í ljósi þessara slysa og þeirrar umræðu sem varð á liðnum vetri, ekki síst á Suðurnesjum þar sem afleiðingar þessara slysa voru greinilega mjög ofarlega í huga bæði vegfarenda, aðstandenda og annarra sem veittu þessum slysum athygli og urðu að horfa upp á afleiðingar þeirra.

Það hefur lengi verið svo að slysatíðni á Vesturlandsvegi hefur verið langmest á þjóðvegum landsins en á síðustu missirum hefur einmitt slysatíðni á Reykjanesbrautinni sunnan Hafnarfjarðar orðið enn hærri. En í því sambandi er rétt að geta þess að umferð um Reykjanesbraut er frábrugðin umferð um alla aðra þjóðvegi landsins, raunar einnig líkari næturumferð um höfuðborgarsvæðið. Þetta ræðst af atvinnusvæðinu suður á Suðurnesjum og flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli. Um Reykjanesbraut eru vegfarendur iðulega á leið til vinnu eða til flugs, tímabundnir og jafnvel í tímaþröng að komast á áfangastað. Það veldur ökumönnum augljóslega mikilli spennu.

Á borgarafundi í félagsheimilinu Stapa í Reykjanesbæ hinn 11. jan. sl. kom fram að tvöföldun Reykjanesbrautar var ákveðin með samþykkt langtímavegáætlunar á Alþingi árið 1998. Í þeirri samþykkt fólst því að samþykkt var tillaga þingmanna Reykjaneskjördæmis um tvöföldun brautarinnar. Fyrstu áfangar þess verks eru þegar á gildandi vegáætlun fyrir árin 2000--2004, þar á meðal fyrstu áfangar þess hluta brautarinnar sem fundurinn fjallaði helst um. Af því sem fram kom á þeim fundi er ljóst að þingmenn hafa mismunandi upplýsingar um hvernig áætla megi raunhæfan framkvæmdatíma enda liggja ekki enn fyrir nákvæm útboðsgögn, en á fundinum var rakið að fjárhaglegar forsendur eru ekki fyrir hendi.

Hins vegar er nauðsynlegt að bregðast við aukinni slysatíðni á þjóðvegum, ekki einungis með fleiri stórframkvæmdum heldur einnig með fleiri aðgerðum enda er alþekkt að það sem ræður endanlega um öryggi vegfarenda er ökulag og athygli ökumanna. Á vegum lögreglustjóraembættanna í Reykjanesbæ, á Keflavíkurflugvelli og í Hafnarfirði er fyrir löngu hafið sameiginlegt löggæsluátak á Reykjanesbrautinni sunnan Hafnarfjarðar sem flutningsmenn vænta mikils af. Athuganir á umferðarslysum á þjóðvegum benda ótvírætt til þess að oftast megi rekja ástæður þeirra slysa til of mikils ökuhraða og ónógrar einbeitingar ökumanna. Hvort tveggja er fylgifiskur þess að ökumenn ofmeta eigin hæfni og meta aðstæður ekki rétt. Sömu athuganir sýna að aukin löggæsla hefur góð áhrif á ökulag, ökumenn draga úr ökuhraða og sýna meiri aðgát. Einnig er ljóst að einungis með aukinni löggæslu er unnt að bregðast við glæfraakstri. Aukin löggæsla er því fljótvirkasta og áhrifaríkasta aðferð til að bæta atferli ökumanna, ná niður ökuhraða og bæta aðgát og ökulag. Áhrifamáttur löggæslunnar sést best í því að slysatíðni er lægst á þjóðvegi nr. 1 um þau löggæsluhéruð þar sem umferðarlöggæsla er mest. Því má segja að aukin umferðarlöggæsla sé um leið skilvirk aðgerð til bættrar umferðarmenningar og aukins öryggis vegfarenda.

[19:15]

Í fyrri lið tillögunnar er lagt til að efla og auka umferðarlöggæslu á þjóðvegum. Þannig getur fyrrnefnt löggæsluátak lögreglustjóranna þriggja orðið grunnur að því að löggæsla á Reykjanesbraut verði aukin til frambúðar og fyrirmynd að hertri löggæslu á öðrum þjóðvegum.

Í öðrum lið tillögunnar er lagt til að auka fræðslu og efla annað starf sem miðar að bættri umferðarmenningu. Í því felst að taka þurfi á tveimur meginþáttum sem ráða miklu um öryggi í umferðinni: Annars vegar á einbeitingu ökumanna og mati þeirra á aðstæðum sem ræður atferli þeirra og viðbrögðum, en athuganir sýna einmitt að það veldur mestu um öryggi eða hættu vegna ökulags. Hins vegar á mótun umhverfis ökumanna umfram ástand vegar og löggæslu, þar á meðal hvort nægjanlegar viðvaranir og ábendingar eru gefnar um það sem fram undan er í umferð eða á vegi, ellegar um of mikinn ökuhraða ef það á við. Viðfangsefnið er fjölþætt og nær m.a. til þess að efla starf sem fyrir er, og var mikið rætt á nýlega afstöðnu umferðarþingi, flýta undirbúningi nýrra aðgerða, skilgreina nýjar aðferðir til að ná athygli ökumanna og auka fræðslustarf, viðvaranir og áróður. Flutningsmenn telja fjölmörg verkefni geta falist í þessari tillögu en benda sérstaklega á eftirfarandi sjö atriði:

1. Að auka fræðslu á vegum Umferðarráðs og áróður sem beinist að ökumönnum almennt, og að leitað verði leiða til að bæta undirbúning ökumanna með ökunámskeiðum, ökuskólum og æfingabrautum.

2. Að sérstaklega verði leitað ráða til að fá ökumenn til að vera betur á varðbergi gagnvart einbeitingarleysi, röngu mati á aðstæðum og ofmati á eigin hæfni og kunnáttu.

3. Að gera úttekt á flutningum með eldsneyti og annarra hættulegra efna um þjóðvegi í því skyni að skipuleggja þá eða tímasetja með tilliti til umferðaröryggis.

4. Að flýta umbótum á skráningu umferðarslysa til að geta betur en áður greint áhættusama vegkafla og aðstæður eða aðra áhættuþætti.

5. Að efla reglubundnar rannsóknir á ástæðum alvarlegra umferðarslysa og þar á meðal að rannsaka fleiri umferðarslys en þau sem valda dauðsföllum.

6. Að gera úttekt á öðrum aðgerðum í öryggisskyni og meta hvar þær gætu komið að gagni, svo sem lýsingu, vegriðum milli akreina, sérstakri akrein fyrir hægfara akstur og fleira af því tagi, en þó sérstaklega að kanna gagn af viðvörunarljósum við hættulega vegkafla eða vegna aðstæðna, svo og viðvörunarljósum tengdum búnaði sem sýnir of mikinn ökuhraða og breytingar á aðstæðum.

7. Að vinna að auknu samstarfi allra aðila er koma að umferðarmálum, þar á meðal allt frá tryggingafélögum til lögreglu og annarra sem láta sig þau varða.

Herra forseti. Ég vil að lokum leggja til að tillögunni verði vísað til hv. samgn. til umfjöllunar og athugunar en mælist til þess að sú nefnd afli sér einnig umsagnar eða álits hv. allshn. þingsins.