Bætt umferðaröryggi á þjóðvegum

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 19:21:08 (6312)

2001-04-03 19:21:08# 126. lþ. 104.39 fundur 528. mál: #A bætt umferðaröryggi á þjóðvegum# þál., DrH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[19:21]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um bætt umferðaröryggi á þjóðvegum landsins og sem einn af flutningsmönnum vil ég aðeins koma hér að máli.

Það er alveg ljóst að allt of margir eiga um sárt að binda vegna þess hve umferðarmenning okkar er á lágu plagi og slysin eru allt of tíð. Ökutækjum hefur fjölgað gríðarlega mikið á Íslandi síðustu fimm ár og með því hefur aukin hætta orðið á óhöppum og slysum. Það liggur fyrir að ungir ökumenn eiga þar oft og tíðum mjög mikla sök á en þó má geta þess að þeir sem tóku ökupróf árið 1999 er fyrsti heili árgangurinn sem hefur þó möguleika á að stunda æfingarakstur með leiðbeinendum í heilt ár. Því er líklegt að sá hópur hafi fengið meiri þjálfun fyrir próf en þeir sem tóku próf áður fyrr. En hlutdeild ungra ökumanna í umferðarslysum er allt of mikil.

Kostnaður vegna umferðarslysa hefur verið reiknaður út af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Þar kemur fram að umferðarslys kosta þjóðfélagið um 12--15 milljarða á ári og það er allt of mikið. Mjög mikilvægt er að vegfarendur noti öll þau öryggistæki sem ber að nota samkvæmt lögum og að vegfarendur hlíti þeim takmörkunum sem veghaldari setur, t.d. um hámarkshraða og að menn aki ekki undir áhrifum áfengis.

Mjög nauðsynlegt er að umferðaröryggismál fái aukið vægi í umræðunni í samfélaginu. Allt of margir láta lífið í umferðarslysum hér á landi. Bara það sem af er þessu ári hafa sex látist í umferðarslysum. Á síðasta ári voru það 33. Nauðsynlegt er að bæta skráningu á umferðarslysum og að tryggja að örugg skil verði á skýrslum til úrvinnslu, það er mjög mikilvægt.

Það er allt of mikið um það að þeir sem látast í umferðarslysum hafi verið án bílbelta. Það er ölvunarakstur. Það er of mikill hraði. Og það er ónóg einbeiting. Það sem skiptir máli er fræðsla og aftur fræðsla og að bæta umferðarmenninguna.

Heilmikið starf hefur farið fram í yngstu bekkjum grunnskóla um umferðaröryggismál. Nú er komin til sögunnar ný námsgrein í grunnskólum sem heitir lífsleikni sem er m.a. ætlað að fjalla um umferðarmál og aðrar slysavarnir.

Ég held að við verðum líka að leggja mjög mikla áherslu á hætturnar sem eru á malarvegum landsins og svo sannarlega þarf að brýna fyrir ferðamönnum sem koma til Íslands að það sé allt annað að keyra á malarvegum en á malbiki. Mörg slys hafa bara orðið við akstur á malarvegi, nú síðast á Suðurlandsvegi í síðustu viku þar sem bíll fór út í malarkantinn og biðu tveir bana í því slysi. Í greinargerðinni er talað um Vesturlandsveg og Reykjanesbraut sem eru mjög hættulegir vegir og allt of mörg slys verða á þeim vegum en það er líka Suðurlandsvegur um Hellisheiði að Hveragerði.

Við eigum að gera allt til þess að bæta umferðarmenninguna og þessi tillaga er sannarlega mjög gott skref í þá átt.