Samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 19:29:57 (6314)

2001-04-03 19:29:57# 126. lþ. 104.40 fundur 551. mál: #A samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs# þál., Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[19:29]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um bætta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs.

Meðflutningsmenn mínir eru sjö aðrir þingmenn Samfylkingarinnar.

Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna möguleika á stofnun uppbyggingarsjóða sambærilega þeim sem Evrópusambandsríkin og Noregur hafa til að efla atvinnu á tilteknum svæðum, endurskipuleggja atvinnulífið og styrkja samkeppnisstöðu þess.

Að lokinni slíkri athugun verði skýrsla og tillögur lagðar fyrir Alþingi, eigi síðar en í október 2001.``

[19:30]

Svo mörg voru þau orð, herra forseti. Greinargerðin er svohljóðandi:

Íslensk stjórnvöld hafa ekki áhuga á að Ísland gangi í Evrópusambandið. Á þau stendur þó sú krafa að búa íslensku atvinnulífi sambærileg kjör þeim sem atvinnulífinu eru búin annars staðar í Evrópu. Stjórnvöld hafa á undanförnum árum aðallega verið upptekin af skattaumhverfi atvinnulífsins og breytingar á því gjarnan útskýrðar, eða réttlættar, með samkeppnisstöðu þess gagnvart öðrum löndum. Það eru hins vegar fleiri þættir sem hafa áhrif á samkeppnisstöðuna, einkum ef við viljum skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið og ná nýjum atvinnufyrirtækjum og tæknikunnáttu inn í landið.

Evrópusambandið er með öfluga uppbyggingarsjóði sem það notar til að ná markmiðum sínum bæði í byggðamálum og í því að endurskipuleggja atvinnulífið. Norðmenn hafa einnig, á þeim grundvelli að þeir ákváðu að hafna aðild að ESB, byggt upp öflugan sjóð, SND, sem veitir stofnstyrki við uppbyggingu atvinnulífsins. Fyrirmynd hans er evrópski byggðaþróunarsjóðurinn. Við skoðun á uppbyggingarsjóðum væri því einnig rétt að líta til þess hvernig uppbygging og framkvæmd er í Noregi sem er eins og Ísland utan Evrópsambandsins en aðili að hinu Evrópska efnahagssvæði.

Miklar atvinnuháttabreytingar hafa orðið á undanförnum árum og eru enn að eiga sér stað og sér ekki fyrir endan á. Mikilvægt er að stjórnvöld geti mótað og fylgt eftir skilvirkri stefnu um það hvernig við skuli brugðist á hverjum tíma og á hverju svæði landsins. Iðnaðarráðuneytið hefur skilgreint landið með tilliti til möguleika hvers svæðis og liggur tillaga að nýju byggðakorti nú til umsagnar og samþykktar hjá ESA, sem er eftirlitsstofnun á Evrópska efnahagssvæðinu, en slíkt kort er grundvöllur byggðaaðgerða bæði við núverandi aðstæður og einnig ef það yrði niðurstaðan að stofna til uppbyggingarsjóða á Íslandi. Í samningnum um EES fékkst undanþága frá því ákvæði að atvinnuleysi þyrfti að vera af tiltekinni stærð til að beita mætti byggðaaðgerðum. Hér á landi eru hins vegar stór og strjálbýl svæði með einhæft atvinnulíf sem uppfylla mundu styrkjaákvæðin.

Helsti byggðavandi okkar Íslendinga er fólksfækkun og til þess var tekið tillit. Mikilvægt er, herra forseti, að gegnsæjar reglur gildi og að fagleg vinnubrögð verði viðhöfð til að þessi aðferð virki með tilætluðum hætti. ESB gerir mjög strangar kröfur og SND gerir líka ríkar faglegar kröfur. Sú stefna að veita stofnstyrki, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og á jafnréttisgrundvelli þannig að allir sem eins er ástatt um á sama svæði eigi rétt til þeirra, er sú leið sem stjórnvöld í okkar helstu samkeppnislöndum hafa valið til að geta markað og rekið árangursríka byggðastefnu og til að einstök svæði geti tekist á við breytingar eða þróun sem á sér stað í tilteknum atvinnugreinum. Þannig hafa Evrópusambandsríkin t.d. tekist á við endurnýjun atvinnulífsins á svæðum sem dregist hafa aftur úr í tækniþróun.

Þannig, herra forseti, eru dæmi um að svokallaðir strúktúrsjóðir hafi verið notaðir t.d. til uppbyggingar í Berlín, hinni nýju höfuðborg Þýskalands, af því þar vildu menn hafa áhrif á tækniþróun, vildu aðstoða við það að atvinnulífið í borginni næði að endurnýja sig.

Dæmi eru um að fyrirtæki sem von var um að stofnsett yrðu hérlendis hafi endað í öðru landi sem býður stofnstyrki í samræmi við þær leikreglur sem við verðum að sætta okkur við að aðrar þjóðir viðhafi en höfum ekki tekið upp sjálf. Flutningsmenn frv. telja rétt að upptaka uppbyggingarsjóða og stofnstyrkja verði könnuð með tilliti til þess að samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs verði sem best.

Herra forseti. Ég vil nefna í þessu sambandi að þegar hér var afgreitt frv. um sölu ríkisins á 51% hlut í Kísilgúrverksmiðjunni við Mývatn var á það bent í nál. að stofnstyrkir væru viðhafðir, ekki bara í Evrópu, heldur einnig í Kanada og Bandaríkjum Norður-Ameríku. Ísland er í þeirri merkingu orðið ákveðið eyland og það er þeim mun mikilvægara ef við ætlum að standa okkur í samkeppni um, bæði fyrirtæki og hvað varðar tækniþróun, að við skoðum þennan kost mjög vandlega.

Að lokum, herra forseti, legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til síðari umr. og hv. iðnn.