Þingsályktunartillaga um Þjóðhagsstofnun

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 10:45:32 (6363)

2001-04-05 10:45:32# 126. lþ. 107.91 fundur 454#B þingsályktunartillaga um Þjóðhagsstofnun# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[10:45]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég gat þess í fyrri ræðu minni að ég skildi fullkomlega þá verkáætlun sem hæstv. forseti ákvað í upphafi vikunnar að fara eftir. Ástæðan var sú að allir flokkarnir höfðu samþykkt hana. En það sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar erum hér að tefla á móti er að framvindan hefur breytt forsendum. Það sem gerst hefur í millitíðinni frá því að menn tóku þessa sameiginlegu ákvörðun er að hæstv. forsrh. eða talsmenn hans úr ráðuneytinu hafa opinberlega gefið til kynna að leggja eigi niður stofnunina, flytja burt verkefni frá henni án þess að breyta lögum. Það er nýtt í málinu, herra forseti. Við erum þeirrar skoðunar að það sé lögleysa.

Ég held því fram að það sé brot á gildandi lögum um Þjóðhagsstofnun að fara þá leið. Þess vegna segjum við: Það er fullt tilefni til þess að ræða þetta mál hér. Það tilefni gefst með þeirri þáltill. sem hér hefur verið lögð fram. Menn hafa hnikað til starfsáætlun þingsins af minna tilefni en þessu og því óska ég eftir að hæstv. forseti svari því áður en þessari umræðu er endanlega lokið hvort hann telji ekki að forsendur hafi breyst vegna þessa.

Síðan er það auðvitað athyglisvert, herra forseti, að í þessari umræðu kemur enginn hv. þm. Framsfl. Nú er það svo að hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., er staddur hér í salnum. Hann hefur lýst yfir tvennu: Hann hefur lýst því yfir að hann hafi fullt traust á Þjóðhagsstofnun og hann hefur lýst því yfir að hæstv. forsrh. hafi ekkert samráð haft við hann. Það vill svo til að hér í afkima hímir líka nýkjörinn varaformaður Framsfl. sem taldi opinberlega að hann væri sérstakur sérfræðingur Framsóknar í því að glíma við Sjálfstfl. Af hverju kemur ekki hæstv. ráðherra Guðni Ágústsson og segir álit sitt á því hvernig Sjálfstfl. er enn einu sinni að auðmýkja, lítillækka og snúa niður Framsfl.? Herra forseti. Er ekki tilefni til að framsóknarmenn geri hreint fyrir sínum dyrum og greini þinginu og greini þjóðinni frá því hver er afstaða þeirra í málinu? Ætla þeir að láta hæstv. forsrh. komast upp með að brjóta lög í málinu?