Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 11:55:50 (6384)

2001-04-05 11:55:50# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[11:55]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í frv. sem hæstv. utanrrh. hefur mælt fyrir um vexti og verðtryggingu kemur fram að ekki eru hugmyndir stjórnvalda uppi um að breyta frá þeirri stefnu í verðtryggingarmálum sem verið hefur nema að litlu leyti. Ég velti því fyrir mér í þessu samhengi sökum þess að verðtryggingarheimildir sem hér eru eiga sér enga hliðstæðu a.m.k. hvað varðar hversu almennar þær eru. Verðtryggingin á rætur sínar að rekja til þess tíma þegar hér ríkti óðaverðbólga og menn höfðu mjög takmarkaða trú á efnahagsmálum þess tíma. Nú hefur margt breyst og menn hafa dásamað hér ýmislegt sem þeir telja að hafi breyst til betri vegar og færst til betri vegar á fjármagnsmarkaði. Þess vegna veltir maður því fyrir sér, því eðli svona verðtrygginga eru vitaskuld fyrst og fremst til þess fallið að draga úr áhættu þeirra sem lána fé, þó reyndar sé heimilt að verðtryggja innstæður líka en þá hefur þróunin verið sú og framkvæmdin hér er fyrst og fremst til þess fallin að tryggja og draga úr áhættu þeirra sem lána fé. Að sama skapi hafa menn farið þá leið að tryggja þetta eins og kostur er.

Því beini ég því til hæstv. utanrrh. hvort það sé einfaldlega þannig að menn treysti sér ekki enn til að afnema þessar víðtæku heimildir í verðtryggingarmálum í ljósi þeirra miklu breytinga sem hafa orðið á efnahagslífi Íslendinga um nokkurt skeið.