Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 15:26:00 (6424)

2001-04-05 15:26:00# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[15:26]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekkert að segja að einhver sérstakur bölmóður í núverandi stjórnarandstöðu hafi orðið til að skapa minna traust á efnahagslífinu og fjármálamörkuðum. Hins vegar vitum við að það sem skiptir öllu máli er að traust ríki og trú á áframhaldandi stöðugleika í þjóðfélaginu og mikið er undir því komið að viðhalda þeim stöðugleika. Það skiptir öllu máli að því er varðar lækkun vaxta á næstunni að okkur farnist vel í efnahagsstjórninni og höfum trú á því að við séum að gera rétta hluti, höfum trú á framtíðinni og höfum trú á möguleikum íslensks samfélags. Þetta skiptir öllu máli.

Ég ætla ekki að deila við menn um það hverjum sé um að kenna að þessi tiltrú er ekki nægileg. Það skiptir ekki meginmáli. En verðtrygging er ákveðin trygging. Hún hefur stuðlað að meiri sparnaði í okkar þjóðfélagi og hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá er sparnaðurinn of lítill í íslensku samfélagi. Meginorsök þess að okkur gengur ekki nægilega vel í efnahagsmálum er að við spörum of lítið.

Ef menn hafa þá trú að hægt sé að leggja niður verðtryggingu eða gera eitthvað annað þá er ég viss um að það mun hafa afleiðingar á sparnaðinn í landinu og það getur sett efnahagslífið úr ákveðnum skorðum. Meðan þessar aðstæður eru verðum við því að vera með slíkar aðgerðir.

Aftur á móti spara menn í Japan jafnvel þó að vextir séu engir, jafnvel þótt það séu mínusvextir. Þar er allt annað hugarfar. Hugarfarið skiptir öllu máli um það hvernig okkur tekst til á næstu árum.