Móttaka flóttamannahópa

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 16:14:10 (6443)

2001-04-05 16:14:10# 126. lþ. 107.13 fundur 588. mál: #A móttaka flóttamannahópa# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[16:14]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þm. nánast vera í andsvari við hv. þm. Pétur H. Blöndal sem talaði fyrr á fundinum en ekki beint í andsvari við mig eftir ræðu mína þannig að ég veit ekki hvort ég á að svara þessu, þ.e. hvort ég á að svara fyrir hv. þm. Pétur H. Blöndal. Mér finnst alveg ástæðulaust fyrir landsbyggðarþingmennina að taka það óstinnt upp þó maður komi kannski með aðra sýn á þessa þjónustu.

Ég velti því bara fyrir mér og hreinlega varpa fram spurningu til hæstv. ráðherra hvort hann telji að fortakslaust eigi að kveða á um að það eigi að auglýsa eftir sveitarfélögum því það getur líka verið þannig að viðkomandi flóttamenn vilji vera í annars konar umhverfi en þeim sveitarfélögum sem endilega sækja um. Verið gæti að einhverjir mundu þrífast kannski betur í þéttbýli, í höfuðborginni eða öðrum stað. Þess vegna spurði ég að því hvort endilega ætti að auglýsa þetta frekar en sækjast eftir því við ákveðna aðila að taka að sér þessa þjónustu. Þetta eru bara vangaveltur sem við eigum eftir að skoða í félmn. þegar þetta mál kemur þangað. En ég hefði gjarnan viljað heyra afstöðu hæstv. félmrh. til þessara vangaveltna. Það er ekki annað.

En ég get því miður, herra forseti, lítið svarað fyrir hv. þm. Pétur H. Blöndal þó ég hafi verið sammála honum í ýmsu sem hann sagði og full ástæða er til að velta því sem hann nefndi fyrir sér í umræðu um flóttamannahópa.