Atvinnuréttindi útlendinga

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 17:44:39 (6458)

2001-04-05 17:44:39# 126. lþ. 107.15 fundur 624. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[17:44]

Mörður Árnason (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki er ástæða til annars en að þakka hæstv. félmrh. fyrir glögg svör við flestu því sem hann var spurður um. Þó get ég ekki verið ánægður með svör hans við fyrirspurn minni um 9. gr. og þau námskeið sem þar er rætt um því þau glöggvuðu málið ekki nema að því leyti að 9. gr. sé í raun þarna sem eins konar föðurleg hvatning til atvinnurekenda og stéttarfélags á hverjum stað og sé svona almennur vilji löggjafarvaldsins að útlendingar viti af því ef verið er að halda námskeið sem þeim eru ætluð. Engin trygging er fyrir því að slík námskeið séu haldin. Það er ekkert út af fyrir sig neins konar hvatnig til þeirra. Það er alveg rétt hjá hæstv. félmrh., Páli Péturssyni, að þetta kostar allt peninga. Þetta er ósköp einfaldlega gjaldið sem við verðum að greiða ef við ætlum að búa í fjölmenningarlandi, ef við ætlum að láta atvinnulíf okkar njóta útlendra starfskrafta um sinn eða til frambúðar. Vandamál útlendinga á Íslandi má að mestu leyti, þegar þeir hafa svona komið sér sæmilega fyrir, koma fyrir í einu orði, þ.e. íslenska, kannski í tveimur orðum, íslensk tunga. Það er það vandamál sem við verðum einhvern veginn að leysa. Það verður ekki allt leyst á borði hæstv. félmrh. Ég veit það.

En það sem ég benti sérstaklega á í ræðu minni, virðulegi forseti, var að hugsanlegt væri að fá atvinnulífið til samstarfs um þessi mál. Þá á ég ekki við einstök fyrirtæki þó það væri gott heldur atvinnulífið að einhverju leyti í heild sinni. Þá væri hægt að gera það þannig á móti að bjóða námskeið sem sérstaklega væru tengd þeirri atvinnustarfsemi sem er helst um að ræða í hverju tilviki.