Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 12:04:26 (6525)

2001-04-06 12:04:26# 126. lþ. 108.18 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[12:04]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Aftur varðandi auglýsingar á störfum seðlabankastjóra. Eins og ég sagði hef ég reynt að koma þessum lagagrundvelli í sama horf og víðast hvar annars staðar, hafa hann sambærilegan. Aðeins í einu landi hefur mönnum dottið í hug að auglýsa þetta starf.

Ég minni á seðlabankastjóra Evrópuseðlabankans. Þar vissi enginn, þegar leiðtogarnir komu saman, hver yrði seðlabankastjóri. Það var ákveðið kl. 6 um nóttina og var svo sannarlega ekki auglýst í þá stöðu. Það er eðli málsins.

Ég man eftir því, sem borgarfulltrúi í gamla daga, að þá var stefna vinstri flokkanna sú að auglýsa ætti stöðu borgarstjóra. Það gerðu þeir svo sannarlega þegar þeir tóku við 1978. Síðan voru þeir í þrjár vikur að semja sín á milli um hver yrði borgarstjóri. Þegar þeir höfðu eftir hatrammar deilur komist að niðurstöðu, þá var staðan auglýst. Það var víst búið að segja frá því í blöðunum hver hefði orðið ofan á í samningaviðræðunum, en svo var staðan auglýst og sex eða sjö manns sóttu um. Ég spyr aftur: Hvern er verið að plata? Eigum við ekki að reyna að hafa þetta gegnsætt? Ég held að það sé afar þýðingarmikið.

Þriggja ára fjárlög sveitarfélaganna hafa því miður ekki hjálpað þeim til að halda vel aftur af sínum fjármálum. Eins og ég segi er tilhneiging til þess að setja meiri útgjöld á síðari hluta slíkra tímabila. Á hinn bóginn, ég tek undir það með hv. þm., er skynsamlegt að meginlínurnar og meginmarkmiðin séu rækilega kynnt og rædd við gerð fjárlaga hverju sinni þannig að t.d. þriggja ára markmið yrðu rædd ítarlega og kynnt. Þeim yrði auðvitað breytt frá ári til árs en hefðu leiðsögugildi fram í tímann. Ég held að það hefði þýðingu fyrir efnahagsmálin.