Skipulag flugöryggismála

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 14:00:01 (6555)

2001-04-06 14:00:01# 126. lþ. 108.94 fundur 461#B skipulag flugöryggismála# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[14:00]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Varðandi flugöryggismál og sérstaklega þau mál sem hér eru til umfjöllunar, þá hef ég lagt áherslu á sem samgrh., að öll vinna væri vönduð og á grundvelli laga. Þess vegna var það eftir að hafa fengið erindi frá aðstandendum þeirra sem fórust í slysinu að ég beindi því til rannsóknarnefndar flugslysa að hún færi yfir þær athugasemdir sem þar komu fram og tæki það mál upp eftir atvikum. Með þeirri aðferð fór ég eftir stjórnsýslureglum og þeim lögum sem mér ber að fara eftir.

Rannsóknarnefnd flugslysa tók þetta bréf fyrir á fundi sínum í dag og mér hefur borist svarbréf þar sem m.a. kemur fram, virðulegi forseti, svo ég vitni til þess:

,,Rannsóknarnefnd flugslysa bendir á að opinber rannsókn á öllum þáttum þessa flugslyss stendur yfir.

Að mati nefndarinnar er mjög brýnt að fyrir hendi sé tiltrú almennings á því að rannsókn hennar og að þær aðgerðir sem flugmálayfirvöld og flugrekendur hafa gripið til í framhaldi af tillögum nefnarinnar leiði til aukins flugöryggis.

Rannsóknarnefnd flugslysa telur eftir atvikum málsins að það muni stuðla að ofangreindu að stjórnandi hinnar opinberu rannsóknar í málinu kalli hið fyrsta til liðsinnis erlendan sérfræðing, t.d. frá Alþjóðaflugmálastofnuninni, sem taki á öllum atriðum málsins, þar á meðal þeim sem bornar hafa verið brigður á í meðferð rannsóknarnefndar flugslysa.``

Með þessu bréfi tel ég að fullkomlega eðlilega sé staðið að málum og það séu eðlileg viðbrögð, bæði sem ráðuneytið hefur staðið fyrir og rannsóknarnefnd flugslysa.