Úrvinnslugjald

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 15:51:05 (6585)

2001-04-06 15:51:05# 126. lþ. 108.24 fundur 680. mál: #A úrvinnslugjald# frv., 681. mál: #A spilliefnagjald# (umsýsla) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[15:51]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hvort sem hæstv. umhvrh. er það hollt eða ekki að fá meira hól þá er rétt að hæla hæstv. ráðherra þegar hún á það skilið. Það frv. sem hér er til umræðu er mjög í anda þess sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur talað fyrir, þ.e. að koma á úrvinnslugjöldum eins og þau eru nefnd hér eða gjöldum á þá sem menga og skilagjöldum á þá vöru sem fólk skilar inn aftur til endurvinnslu, úrvinnslu og endurnýtingar.

Auðlindir jarðar eru ekki ótakmarkaðar og okkur ber að umgangast þær með varúð. Þetta úrvinnslugjald mun líka beina okkur inn á þá braut að skoða umbúðir ekki síður en innihald, að hafa ekki meiri eða stærri umbúðir um vöruna en þarf. Maður verður að hugsa um það líka því að það kostar að farga.

Því fagna ég þessu frv. og vona að um það náist góð sátt. Ég ætla ekki að fara neitt í einstakar greinar. Ég veit að fulltrúi okkar Vinstri hreyfingar -- græns framboðs í umhvn. mun gera það og taka þátt í umræðu um það frv. í nefndinni. Ég ætla að vona að það fái góða afgreiðslu á þinginu.