Úrvinnslugjald

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 15:53:05 (6586)

2001-04-06 15:53:05# 126. lþ. 108.24 fundur 680. mál: #A úrvinnslugjald# frv., 681. mál: #A spilliefnagjald# (umsýsla) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessar umræður. Í upphafi umræðna kom fram hjá hv. þm. Daníel Árnasyni að ástandið í sorphirðumálum og úrgangsmálum hafi verið afar slæmt áður fyrr og það er alveg rétt. Á tiltölulega skömmum tíma hefur orðið hálfgerð stökkbreyting á þessum málaflokki þar sem sveitarfélögin hafa tekið sig verulega á og þau vilja í dag öll standa sig í sorphirðumálunum. Þau eru mörg hver að fara í afar skemmtilegar nýjungar, m.a. í Reykjavíkurborg. Þar er að hefjast tilraunastarfsemi við að vigta það sorp sem kemur frá heimilum. Ég spái því að það verði víða þannig í framtíðinni.

Hv. þm. var með vangaveltur um hvort útflutningsgreinar og framleiðslugreinar, sem bæru gjaldið, gætu lent í því að vara þeirra hækkaði. Menn hafa verið að ræða þá hluti við samningu frv. Meðal annars hafa komið upp dæmi eins og þau þegar menn flytja inn pappa eða einhvers konar umbúðir í stórum einingum sem þeir ætla síðan að nota aftur, t.d. umbúðir fyrir fisk. Þá flytja menn inn umbúðirnar og samkvæmt frv., ef ekki er að gáð, yrði lagt gjald á það og síðan færi fiskur ofan í umbúðirnar og yrði sendur aftur til útlanda. Viðkomandi umbúðir færu aldrei í förgun innan lands, þær færu út aftur. Hvað þá? Vegna þess vil ég benda sérstaklega á það sem fram kemur neðst í 10. gr.:

,,Ráðherra skal samkvæmt tillögu nefndar um úrvinnslu úrgangs ákveða með reglugerð með hverjum hætti skal undanþiggja vörur gjaldi eða endurgreiða gjald í þeim til vikum þegar vara kemur ekki til úrvinnslu hér á landi.``

Það verður því skoðað sérstaklega í úrvinnslunefnd þegar svona mál koma upp. Ég get bent á að varðandi fiskútflutninginn eiga Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök fiskvinnslustöðva hvort sinn fulltrúann í úrvinnslunefndinni.

Í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar kom fram að fundið hefði verið upp ótrúlega fallegt orð yfir skatta, þ.e. hagræn skilyrði fyrir úrvinnslu úrgangs. Ég verð að segja að við lítum kannski ekki alveg á þetta sem skatta. Það er þó umdeilanlegt að mati sumra en það kemur fram í athugasemdum við lagafrv., t.d. þegar menn ræða um spilliefnagjaldið. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Spilliefnagjald er lagt á viðkomandi vörur í innflutningi og á gjaldið að standa undir kostnaði við förgun vöruafganga viðkomandi vöruflokka.`` --- Það er eiginlega sama hugmyndafræði og í þessu frv. --- ,,Hér er um þjónustugjald að ræða þar sem tekjur og gjöld í hverjum vöruflokki skulu standast á.``

Menn eru að borga fyrir einhvers konar þjónustu sem þeir fá síðar, fyrir það að aðilar munu farga þessari vöru eða endurnýta hana. Ég vildi koma þessu sérstaklega á framfæri.

Hv. þm. gerði samsetningu úrvinnslunefndar líka að umræðuefni og spurði hvort ráðherra mundi velja fulltrúa í úrvinnslunefndina, m.a. með náttúruvernd í huga. Ég vil af því tilefni taka fram að í úrvinnslunefndinni eiga sæti níu menn og þeir eru allir tilnefndir nema fulltrúar ráðherra sem eru tveir, formaður og annar. Þeir sem tilnefna eru Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og Alþýðusamband Íslands. Enn fremur skal einn skipaður sameiginlega af Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Samtökum fiskvinnslustöðva, þ.e. einn er sameiginlegur frá þessum aðilum. Það var ekki rétt sem ég sagði áðan að þeir ættu hvor sinn fulltrúa, þeir eiga einn fulltrúa sameiginlegan. Þessir aðilar eru skipaðir eftir tilnefningum. Það er því ekki mikið svigrúm fyrir ráðherra að huga að einhverjum sérstökum hagsmunum í því sambandi. Ég tel að það séu verulegar líkur á því að afar hæft fólk verði skipað í þessa nefnd. Hv. þm. Jóhann Ársælsson var með vangaveltur um það hvort nefndin mundi virka íþyngjandi fyrir atvinnulífið. Ég tel að svo sé alls ekki. Ég tel mjög líklegt að viðkomandi aðilar sem eiga að tilnefna í nefndina muni tilnefna færasta fólk sitt.

Það verður að segjast eins og er að þessi mál eru mjög flókin. Við höfum sé það í spilliefnamálunum. Þetta eru flókin mál og samtök á markaðnum hafa nánast komið sér upp sérfræðingum sem þekkja vel til þessara mála, úrvinnslumálanna. Ég býst þannig við því að þeir sem eiga að tilnefna í úrvinnslunefndina muni tilnefna bestu sérfræðinga sína í þessum málaflokki.

Varðandi úrvinnslunefndina vil ég líka taka fram að menn sjá það, þegar þeir lesa hvernig hún er saman sett, að hinir ýmsu geirar atvinnulífsins eiga þar meiri hluta. Ráðherra skipar einungis tvo af níu, Samband íslenskra sveitarfélaga er með tvo og aðrir eru með fimm. Því er mjög mikilvægt að atvinnulífið standi að þessum málum og beri ríka ábyrgð á þeim. Ég tel að samsetning nefndarinnar endurspegli það að atvinnulífið er að sýsla með þessi gjöld á markaðnum. Ég held að eina leiðin til þess að þetta gangi vel sé að atvinnulífið sé mjög ábyrgt. Það verður það vegna þess að það heldur meira eða minna utan um þetta kerfi samkvæmt frv.

[16:00]

Varðandi 9. gr. sem hv. þm. gerði einnig að umtalsefni, um frjálsa samkomulagið svokallaða og hvernig eftirlitinu yrði háttað, þá kemur fram í 9. gr. að fyrirtækjum og atvinnugreinum er heimilt að semja sín á milli um ráðstafanir til að auka endurnýtingu og endurnotkun úrgangs. Ráðherra getur þá undanþegið vörur gjaldtöku samkvæmt lögunum og skal staðfesta slíka samninga að fenginni umsögn nefndar um úrvinnslu úrgangs og Hollustuverndar ríkisins. Hollustuvernd ríkisins skal hafa eftirlit með framkvæmd slíkra samninga. Það verður þannig hlutverk Hollustuverndar ríkisins að hafa eftirlit með slíkum samningum og að sjálfsögðu mun úrvinnslunefndin einnig fylgjast með þeim meira eða minna vegna þess að í nefndinni eru fulltrúar frá öllum stærstu geirum atvinnulífsins.

Varðandi dæmi um hvað menn sjá fyrir sér, hverjir gætu hugsanlega samið svona frjálst, þá er hægt að nefna að hugsanlegt er, þó að maður viti það ekki alveg í dag, að menn á drykkjarvörumarkaðnum geti skoðað svona frjálst samkomulag. Drykkjarvörumarkaðurinn er einsleitur og ég spái því að þar muni menn skoða það sameiginlega hvort þeir vilji búa til einhvers konar kerfi þar sem þeir ná þeim prósentuhlutföllum sem til er ætlast í tilskipun Evrópusambandsins, að við eigum að ná einhverjum prósentuhlutföllum varðandi endurnýtingu, endurnotkun og endurvinnslu. Það er alveg hugsanlegt að drykkjarvörumarkaðurinn sé kjörið dæmi um geira sem getur búið til frjálst samkomulag og staðið við það þannig að vel sé. Hins vegar er ómögulegt að spá fyrir um það hér en mig langar til að taka þá starfsemi sem dæmi.

Hér hafa þingmenn tala um að frv. sé afar gott og jákvætt. Það er rétt. Það er kannski engin sérstök ástæða til að hæla umhvrh., heldur miklu frekar atvinnulífinu vegna þess að í þessum frumvörpum sem ég hef flutt í dag, m.a. frv. um grænt bókhald og þessu frv., er atvinnulífið höfuðleikmaðurinn. Það er þannig í dag að atvinnulífið er orðið mun meðvitaðra um umhverfismál en nokkurn tíma áður. Ég fagna því mjög. Ég fagna því mjög að atvinnulífið hefur bæði gagnvart græna bókhaldinu og þessu frv. haft mikinn áhuga á málinu og lagt mikla vinnu á sig við að semja þessi frumvörp með umhvrn. Ég tel að við séum að upplifa gerbreytta stöðu hjá atvinnuvegunum gagnvart umhverfismálum og það er mikið fagnaðarefni.

Ég vil einnig, hæstv. forseti, ítreka að lokum að mikilvægt er að mínu mati að frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Ég veit að málið er stórt og flókið. Það leggur talsverða vinnu á herðar umhvn. en það er að mínu mati mikilvægt að málið nái fram að ganga vegna þess að við eigum að ná ákveðnum lágmörkum 1. júlí í sumar samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins og þrátt fyrir að frv. færi í gegn núna er ekki víst að við mundum ná því. Við mundum hins vegar örugglega ná því sumarið þar á eftir eða ég býst fastlega við því. Ég tel þess vegna æskilegt að við byrjum sem fyrst á að smíða þetta kerfi og setja það upp og því væri afar æskilegt að málið næði fram að ganga á yfirstandandi þingi.