Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 16:07:29 (6589)

2001-04-06 16:07:29# 126. lþ. 108.26 fundur 201. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sektarákvarðanir Félagsdóms) frv., Frsm. ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[16:07]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá félmn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Nefndin fékk á fund sinn Elínu Blöndal frá félmrn. og Viðar Má Matthíasson frá réttarfarsnefnd. Nefndin fékk einnig fjölda umsagna varðandi málið.

Frumvarpið er einkum lagt fram með hliðsjón af ákvæði 1. tölul. 2. gr. í 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994, og samkvæmt áliti réttarfarsnefndar og refsiréttarnefndar. Í ákvæðinu greinir að sérhver sem dómstóll finnur sekan um afbrot eigi rétt á að láta æðri dóm endurskoða sakfellinguna eða refsinguna. Það þykir því rétt að lögum um stéttarfélög og vinnudeilur verði breytt með þeim hætti að heimilt verði að kæra sektarákvarðanir Félagsdóms til Hæstaréttar. Þá er í frumvarpinu að finna lagfæringar á texta laganna.

Félagsmálanefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson og Drífa Hjartardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, Kristján Pálsson, Jónína Bjartmars, Pétur H. Blöndal, Guðrún Ögmundsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir og Steingrímur J. Sigfússon.