Dýrasjúkdómar

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 16:17:13 (6594)

2001-04-06 16:17:13# 126. lþ. 108.28 fundur 291. mál: #A dýrasjúkdómar# (sjúkdómaskrá o.fl.) frv., Frsm. HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[16:17]

Frsm. landbn. (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Halldór Runólfsson yfirdýralækni. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Bændasamtökum Íslands, Búkollu -- félagi áhugamanna um íslensku kúna, Félagi hrossabænda og heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og ýmsum öðrum, þar á meðal Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Veiðimálastofnun og Æðarræktarfélagi Íslands.

Með frv. þessu er annars vegar verið að breyta núgildandi sjúkdómaskrá í þá átt að aðlaga hana alþjóðlegum stöðlum. Hins vegar er verið að fella niður dýrasjúkdómanefnd sem hefur aldrei verið skipuð og færa skyldur hennar að nokkru leyti til yfirdýralæknis og að nokkru leyti til dýralæknaráðs sem skipað hefur verið af landbrh. skv. 4. gr. laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.

Við umfjöllun nefndarinnar um þetta frv. var töluvert mikið rætt um það, þar sem þetta eru lög um dýrasjúkdóma, hvort ástæða væri til að gera breytingar á ákvæðum dýrasjúkdómalaga til að styrkja einhver þau ákvæði sem þyrfti til að betur væri hægt að bregðast við og verjast dýrasjúkdómum, t.d. gin- og klaufaveiki sem þarf ekki að ræða hér hversu mikill vágestur er. Eftir að hafa farið yfir það mál og fengið það staðfest frá landbrn. að engin þörf væri á skýrari eða styrkari ákvæðum þá litum við svo á að ekki þyrfti að skoða það frekar enda liggur ljóst fyrir í núgildandi lögum að hæstv. landbrh. hefur öll tök á því að bregðast við með þeim aðgerðum sem þykja vænleg til að verjast dýrasjúkdómum og hindra að þeir berist til landsins að höfðu samráði og fengnum tillögum yfirdýralæknis. Lagaramminn gagnvart vörnum gegn dýrasjúkdómum er alveg skýr og klár. Þar er heimilt að beita býsna ströngum aðgerðum til að hindra að dýrasjúkdómar berist til landsins og strangari en víðast hvar annars staðar.

Nefndin gerir brtt. við frv. við 2. umr. Orð höfðu víxlast og gerð er grein fyrir breytingunum á þskj. 930 og ástæðulaust að orðlengja það frekar. Þar eru smálagfæringar og leiðréttingar á viðaukum og upptalningu á dýrasjúkdómum sem þarf ekki að mínum dómi að fara nákvæmar yfir við þessa umræðu. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á þskj. 930.

Við afgreiðslu málsins úr nefndinni voru hv. þm. Guðjón Guðmundsson og Einar Oddur Kristjánsson fjarstaddir en Guðjón A. Kristjánsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur þessu áliti.

Undir álitið rita hins vegar sá sem hér stendur, Sigríður Jóhannesdóttir, Drífa Hjartardóttir, Jónína Bjartmarz, Guðmundur Árni Stefánsson, Þuríður Backman og Kristinn H. Gunnarsson.