Þingmennskuafsal Ingibjargar Pálmadóttur

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 15:01:24 (6610)

2001-04-23 15:01:24# 126. lþ. 109.92 fundur 474#B þingmennskuafsal Ingibjargar Pálmadóttur#, Forseti GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[15:01]

Forseti (Guðjón Guðmundsson):

Borist hefur svohljóðandi bréf:

,,Akranesi, 14. apríl 2001.

Til forseta Alþingis,

Halldórs Blöndals.

Með bréfi þessu afsala ég mér sæti mínu á Alþingi.

Ég þakka alþingismönnum gott samstarf á Alþingi þau réttu 10 ár sem ég hef setið þar, fyrst sem þingmaður og síðan jafnframt sem ráðherra.

Ég óska Alþingi og alþingismönnum allra heilla í framtíðinni.

Ingibjörg Pálmadóttir, 2. þm. Vesturl.``

Með þingmennskuafsali Ingibjargar Pálmadóttur hverfur úr röðum okkar alþingismanna einn úr forustusveit stjórnmálanna. Ingibjörg Pálmadóttir var fimmta konan til að gegna ráðherraembætti hér á landi, sat í ríkisstjórn samfellt í sex ár sem heilbr.- og trmrh. Hún var fyrst kosin á Alþingi í apríl 1991 og varð ráðherra fjórum árum síðar. Sama dag og hún ritaði bréf sitt um afsal þingmennsku, þ.e. 14. apríl, fékk hún jafnframt lausn frá ráðherrastörfum.

Fyrir hönd Alþingis færi ég Ingibjörgu Pálmadóttur þakkir fyrir störf hennar á vettvangi Alþingis. Persónulega þakka ég henni sem samþingsmaður hennar í Vesturlandskjördæmi ágæt kynni og samstarf í stjórnmálum, bæði hér á Alþingi og einnig í bæjarstjórn Akraness þar sem við áttum sæti allnokkur ár. En síðar urðum við, eins og raunar nær allir núverandi þingmenn Vesturlands, samferða inn á Alþingi vorið 1991. Ég óska Ingibjörgu Pálmadóttur allra heilla í framtíðinni.

Við þingsæti Ingibjargar Pálmadóttur tekur Magnús Stefánsson og verður 2. þm. Vesturl. Magnús Stefánsson er ekki ókunnugur þingstörfum. Hann sat sem alþingismaður 1995--1999 og hefur tekið sæti sem varaþingmaður á þessu kjörtímabili. Ég býð hann velkominn til starfa.

Þá vil ég jafnframt færa nýjum heilbr.- og trmrh., Jóni Kristjánssyni, kveðjur og árna honum allra heilla í nýju starfi á ráðherrabekk.