Þjóðhagsstofnun

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 15:10:06 (6616)

2001-04-23 15:10:06# 126. lþ. 109.1 fundur 466#B Þjóðhagsstofnun# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[15:10]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Nýlega vakti hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, máls á stöðu Þjóðhagsstofnunar á Alþingi í kjölfar þess að hæstv. forsrh. sló stofnunina nánast af í fjölmiðlum. Síðan hefur komið fram að málefni og framtíð stofnunarinnar hafi ekki einu sinni komið til umræðu í ríkisstjórninni. Staða hennar er því í lausu lofti. Því er full ástæða, herra forseti, til að kalla eftir upplýsingum um málefni Þjóðhagsstofnunar að nýju á Alþingi. Því spyr ég hæstv. forsrh.: Hvenær gerir hæstv. ráðherra ráð fyrir því að leggja Þjóðhagsstofnun niður og hvenær má búast við frv. um þær breytingar? Ég geri ráð fyrir að það þurfi lagabreytingu til þess að hún verði lögð niður.

Herra forseti. Ég spyr einnig hvort samstaða sé í ríkisstjórninni um að Þjóðhagsstofnun verði lögð niður. Nú er aðeins innan við mánuður eftir af þingstörfum á þessu þingi. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Má búast við frv. um málið fyrir þinglok?