Árósasamningur um aðgang að upplýsingum

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 16:04:32 (6643)

2001-04-23 16:04:32# 126. lþ. 109.19 fundur 654. mál: #A Árósasamningur um aðgang að upplýsingum# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[16:04]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.

Samningur sá sem hér um ræðir var samþykktur á fjórða ráðherrafundinum um umhverfi Evrópu í Árósum 25. júní 1998 og hefur verið nefndur Árósasamningur. Sama dag undirrituðu samninginn 35 ríki, þar á meðal Ísland og Evrópubandalagið. Fjögur ríki til viðbótar undirrituðu hann áður en frestur til þess rann út 21. desember 1998. Hinn 27. mars 2001 höfðu tíu ríki fullgilt samninginn eða gerst aðilar að honum. Aðild að samningnum er opin aðildarríkjum Efnahagsráðs Evrópu, Evrópubandalaginu og þeim ríkjum sem hafa stöðu samráðsaðila í Efnahagsráði Evrópu. Samningurinn öðlast gildi þremur mánuðum eftir að sextánda skjalið um fullgildingu eða aðild er afhent til vörslu.

Árósasamningurinn er ný tegund samnings um umhverfismál. Hann tengir saman umhverfisrétt og mannréttindi. Hann viðurkennir að menn hafi skyldum að gegna gagnvart komandi kynslóðum. Samningurinn staðfestir að sjálfbærri þróun verður ekki náð án aðildar allra hagsmunaaðila og tengir saman ábyrgð stjórnvalda og umhverfisvernd. Hann beinir athyglinni að gagnverkandi áhrifum almennings og stjórnvalda í lýðræðislegu samhengi og kveður á um ný ferli varðandi þátttöku almennings í viðræðum um alþjóðlega samninga og framkvæmd þeirra.

Markmið samningsins er sett fram í 1. gr. hans. Samkvæmt því ákvæði skulu samningsaðilar ábyrgjast rétt til aðgangs að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgangs að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum í samræmi við ákvæði samningsins í því skyni að stuðla að verndun réttinda hvers einstaklings af núlifandi og komandi kynslóðum til að lifa í umhverfi sem er fullnægjandi fyrir heilsu og velferð hans.

Árósasamningurinn veitir almenningi því réttindi og leggur samningsaðilum og stjórnvöldum skyldur á herðar varðandi aðgang að upplýsingum og þátttöku í ákvarðanatöku. Hann styður þessi réttindi með ákvæðum um aðgang að réttlátri málsmeðferð sem stuðla að auknu vægi samningsins. Í formála samningsins eru umhverfisvernd og mannréttindi tengd saman og réttindum í umhverfismálum veitt sama staða og öðrum mannréttindum.

Þau lög hér á landi sem fjalla um þá þætti sem Árósasamningurinn tekur til eru annars vegar lög nr. 21/1993, um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál, og hins vegar lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Á grundvelli síðarnefndu laganna hefur verið sett reglugerð nr. 671/2001, um mat á umhverfisáhrifum. Að mati umhverfisráðuneytisins kallar fullgilding samningsins ekki á lagabreytingar hér á landi. Þeim hefur þegar verið komið á og eru fullnægjandi að mati ráðuneytisins til að staðfesta þennan samning endanlega.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni umræðunni verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.