Staða erlends fiskverkafólks

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 13:56:20 (6875)

2001-04-26 13:56:20# 126. lþ. 113.95 fundur 488#B staða erlends fiskverkafólks# (umræður utan dagskrár), Flm. KVM
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Orðalag mitt áðan þar sem ég sagði að menn þyrftu að segja sig til sveitar og upplifa þá stöðu að þeir væru hreppsómagahnokkar hefur farið fyrir brjóstið á þingmönnum ríkisstjórnarinnar. Ég notaði hér íslenskt orðalag sem ég held að allir skilji. Það er mjög erfitt og mjög alvarlegt mál þegar fólk þarf að ganga inn á skrifstofur sveitarstjórna og biðja um sérstakan styrk eða peninga vegna þess að fólkið er komið í mjög slæma stöðu og er algjörlega upp á annað fólk komið. Það er enn þá daprara þegar þetta er fullfrískt, hraust og gott fólk. Orðalagið átti fullkomlega við hér, að minni hyggju, ég vil taka það fram.

Hins vegar vil ég þakka hæstv. félmrh. fyrir góð viðbrögð hans. Það er ánægjulegt að þetta fólk skuli ekki þurfa að ganga inn á sveitarstjórnarskrifstofur og biðja um styrk eða framlag eða hvað sem menn vilja kalla það. En við vitum alveg hvað þetta merkir allt saman. Það er gleðiefni að til þessa kemur ekki hjá fólkinu ef hægt er að lesa þetta út úr lögum að það hafi þann rétt sem verið var að spyrja um hvort það byggi við.

En auðvitað er slæmt ef grípa þarf að til sérstakra aðgerða í hvert skipti sem til þessarar neyðar kemur. Það er auðvitað langbest að til séu heildstæð lög í landinu um þessi mál þannig að ekki þurfi að koma upp svona aðstæður aftur og aftur. Réttindi þessa fólks verða að vera tryggð þannig að það geti verið öruggt um afkomu sína og líf þegar það kemur hingað í ókunnugt land.