Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 16:36:26 (6901)

2001-04-26 16:36:26# 126. lþ. 113.6 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv. 27/2001, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[16:36]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það geta verið sterk rök fyrir því að heimila undanþágu frá meginreglunni um sjálfstæði ákæruvaldsins eins og hér er lögð til og hæstv. dómsmrh. og reyndar fleiri sem hér hafa talað hafa nefnt sérstaklega til sögunnar Guðmundar- og Geirfinnsmálin. Ég segi það fyrir mig að ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt að til sé heimild þannig að möguleiki sé til þess að fara ofan í slík mál þegar þau koma upp.

Herra forseti. En það er jafnmikilvægt í mínum huga til þess að vernda það réttarríki sem við teljum okkur búa við að mjög sé vandað til þess hvernig þetta er gert. Herra forseti. Það er ekki sama hvernig svona frávik er veitt. Í tillögunni sem hér hefur komið fram frá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni og Guðmundi Árna Stefánssyni er verið að vísa þessu valdi mun meira til Alþingis sem er æðsta stofnun þjóðfélags okkar og það er munur á því, herra forseti, og því sem hér er gert ráð fyrir, opinni heimild til handa dómsmrh. sem ég efast ekki um að mun alltaf fara mjög gætilega með þá heimild. En, herra forseti, réttarkerfi okkar er þannig byggt upp að við þurfum að fara mjög varlega í öllum frávikum frá því. Mjög oft hefur verið nefnt í þessari umræðu að þetta snúist um réttlæti en ekki réttarkerfi og ef spurningin er hvort við eigum að halda með réttlætinu eða réttarkerfinu, þá er það líka spurning um réttlæti að réttarkerfið sé virt. Herra forseti. Þess vegna segi ég að munurinn á þeirri tillögu sem hér er lögð fram af hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni og Guðmundi Árna Stefánssyni annars vegar og hins vegar því sem lagt er fram af dómsmrh. er fyrst og fremst spurning um hvernig slíkt er gert og um það held ég að málið snúist fyrst og fremst.