Meðferð opinberra mála

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 16:40:43 (6903)

2001-04-26 16:40:43# 126. lþ. 113.6 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv. 27/2001, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[16:40]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki rétt að halda því fram að með brtt. hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar og Guðmundar Árna Stefánssonar sé verið að leggja til að Alþingi fari með rannsókn þessa máls. Það sjá allir sem lesa tillöguna, herra forseti.

Hins vegar er verið að leggja til að hæstv. dómsmrh. leggi fyrir Alþingi sína tillögu um skipan nefndar og þar komi fram hvernig nefndin skuli skipuð o.s.frv. Það er í mínum huga mjög eðlileg leið að fara. Við það skapast umræða um þessa heimild og hún á eðli málsins samkvæmt að vera mjög þröng. Hana á aðeins að nota í mjög þröngum undantekningartilvikum og í mínum huga er mjög eðlilegt að slík undantekningarheimild sé tekin til umræðu hér í þessari stofnun, á hinu háa Alþingi og þannig hafi hæstv. dómsmrh. Alþingi með sér við þessa ráðagerð hverju sinni. Ég held að það sé ekki aðeins æskilegt fyrir aðila máls sem hugsanlega geta átt hagsmuna að gæta heldur ekkert síður fyrir hæstv. dómsmrh.