Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 17:48:11 (6916)

2001-04-26 17:48:11# 126. lþ. 113.10 fundur 348. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (heildarlög) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[17:48]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um áhafnir íslenskra skipa.

Frv. þetta er byggt á tillögum nefndar sem ég skipaði í framhaldi af því að frv. til laga um áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta varð ekki útrætt á síðasta þingi. Í skipunarbréfi nefndarinnar kom fram að henni væri ætlað að gera tillögur til ráðuneytisins um nýtt frv. og gera jafnframt tillögur um skipan þessara mála að því er áhafnir fiskiskipa varðar.

Í starfi sínu byggði nefndin á fyrrnefndu frv. sem ekki varð útrætt á síðasta þingi. Nefndin lagði til að gildissvið frv. yrði víkkað og það tæki til allra skipa sem skráð eru á skipaskrá samkvæmt lögum um skráningu fiskiskipa.

Nefndin leggur til að gildissvið frv. verði víkkað og það taki til allra skipa sem skráð eru á skipaskrá samkvæmt lögum um skráningu skipa. Lagt er til að fiskiskip falli því undir frv. og að Ísland fullgildi alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna á fiskiskipum frá 1995. Í áliti sínu í vor lagði samgöngunefnd þingsins áherslu á að atvinnuréttindalög skipstjórnar- og vélstjórnarmanna, nr. 112/1984 og 113/1984, yrðu tekin til heildarendurskoðunar með það að markmiði að setja heildarlöggjöf um áhafnir allra íslenskra skipa.

Frv. til laga um áhafnir íslenskra skipa var dreift á Alþingi fyrir jól en ekki hefur verið mælt fyrir því fyrr en nú. Ástæða þess er m.a. að deilur hafa orðið um efni þess, um lágmarksfjölda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á fiskiskipum og tengja sjómannasamtökin málið að nokkru leyti kjaradeilu sjómanna á fiskiskipum. En þess ber að geta að í fyrrnefndri nefnd sátu fulltrúar frá sjómannasamtökunum og samtökum útgerðarmanna auk annarra ágætra fulltrúa.

Í ráðuneytinu hafa verið haldnir óformlegir fundir með þeim aðilum sem að málinu koma eftir að frv. kom fram en ekki hefur fundist lausn sem ég tel ásættanlega. Með hliðsjón af þeirri stöðu sem er í kjaradeilu sjómanna á fiskiskipum gæti afgreiðslu frv. óbreytts nú verið túlkuð sem stuðningur við sjónarmið eins aðila í þessari viðkvæmu deilu.

Þar sem deilan hefur ekki verið til lykta leidd hef ég ákveðið að skrifa samgn. Alþingis bréf sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Hinn 1. desember sl. kynnti ég fyrir ríkisstjórn frv. til laga um áhafnir íslenskra skipa. Frv. sem tók til allra skipa var dreift á Alþingi fyrir jól en hefur ekki verið mælt fyrir því. Ástæðan er m.a. sú að ákvæði frv. tengjast að nokkru leyti kjaradeilu sjómanna á fiskiskipum. Í ráðuneytinu hafa verið óformlegir fundir með þeim aðilum sem að málinu koma en ekki hefur fundist viðunandi lausn.

Í dag mun ég mæla fyrir frv.`` --- en bréfið er skrifað í dag --- ,,og verður það væntanlega sent hv. samgn. til umfjöllunar. Með hliðsjón af þeirri stöðu sem nú er uppi í kjaradeilu sjómanna hef ég ákveðið að óska hér með eftir því við samgn. Alþingis að hún leggi til breytingar á frv. sem feli það í sér að ákvæði þessi um fiskiskip verði felld brott og það taki einungis til áhafna farþegaskipa og flutningaskipa.

Mjög brýnt er orðið að ákvæði sem varða farþegaskip og flutningaskip taki gildi sem fyrst til þess að tryggja að Siglingastofnun Íslands geti, í samræmi við alþjóðasamþykktir sem Ísland er aðili að, gefið út alþjóðleg skírteini til íslenskra sjómanna sem starfa á íslenskum skipum og skipum skráðum erlendis. Skip sem Íslendingar starfa á og eru í alþjóðlegum siglingum hafa að undanförnu lent í töfum af þessum sökum í hafnarríkiseftirliti erlendis og geta þau átt á hættu ef ekki verður bætt úr að verða kyrrsett í erlendum höfnum. Þetta kann jafnframt að leiða til þess að íslenskum sem erlendum útgerðum þessara skipa verði nauðugur einn kostur að ráða sjómenn frá öðrum ríkjum til starfa í stað íslenskra skipverja. Til að koma í veg fyrir að svo verði er nauðsynlegt að færa í íslenskan rétt alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna á farþegaskipum og flutningaskipum með samþykkt fyrrnefnds frv.``

Megintilgangur frv. er að laga íslenska löggjöf að alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna frá 1978, sem tekur til áhafna flutninga- og farþegaskipa og breytt var í verulegum atriðum árið 1995. Evrópusambandið hefur fullgilt samþykktina og sett tilskipun um lágmarksþjálfun sjómanna, 94/58/EB, sem er breytt með tilskipun 98/35/EB. Þær tilskipanir eru hluti þeirra gerða sem taka verður inn í íslenska löggjöf á grundvelli EES-samningsins.

Markmið frv. er að tryggja að íslenskir sjómannaskólar og menntun íslenskra sjómanna uppfylli alþjóðlegar kröfur með því að laga íslenska löggjöf að fyrrnefndri alþjóðasamþykkt um menntun, þjálfun, skírteini og vaktstöðu sjómanna og tilskipun Evrópusambandsins um lágmarksþjálfun sjómanna. Með því á að tryggja að menntun og atvinnuskírteini íslenskra sjómanna verði viðurkennd alþjóðlega.

Alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna var samþykkt á allsherjarþingi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar sumarið 1978. Hún öðlaðist gildi 28. apríl 1984 þegar hún hafði verið fullgilt af 25 ríkjum sem áttu meira en helming af samanlögðum kaupskipaflota heimsins. Samþykktin var fyrsta tilraun þjóða heims til að setja alþjóðlegar lágmarkskröfur um þjálfun og menntun áhafna kaupskipa. Hún er talin ein mikilvægasta alþjóðasamþykkt sem gerð hefur verið til að auka öryggi sjómanna.

Tilefni samþykktarinnar var í upphafi ekki síst að mikils misræmis hafði gætt um menntunar- og þjálfunarkröfur sjómanna á farþegaskipum og flutningaskipum í einstökum aðildarríkjum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Áður hafði hvert ríki sett eigin kröfur í þessum efnum og engir alþjóðastaðlar voru til um útgáfu atvinnuskírteina til handa skipstjórnar- og vélstjórnarmönnum á farþegaskipum og flutningaskipum. Brýnt var því að samræma þessar kröfur til að auka öryggi skipa og áhafna.

Árið 1995 var ákveðið að gera grundvallarbreytingar á samþykktinni. Meginmál hennar var óbreytt en nýr viðauki var tekinn inn í stað þess gamla auk þess sem svokallaður STCW-kóði var tekinn inn í hana. Í meginmáli og viðauka eru lagalegar kröfur en þær eru nánar útlistaðar í bálknum. Hin endurskoðaða alþjóðasamþykkt var undirrituð 7. júlí 1995 af 71 aðildarríki, þar á meðal Íslandi, og tók gildi 1. febrúar 1997. Fram til 1. febrúar 2002 mega samningsaðilar þó gefa út og viðurkenna skírteini sem giltu fyrir þann dag og varða sjómenn sem hófu nám eða byrjuðu að safna siglingatíma fyrir 1. ágúst 1998. Í ársbyrjun 2002 eiga allir skipstjórnar- og vélstjórnarmenn á farþegaskipum og flutningaskipum að hafa fengið í hendur skírteini gefin út samkvæmt samþykktinni. Nýju skírteinin eiga að tryggja að lögmætir handhafar þeirra hafi þá þekkingu og hæfni sem kveðið er á um í samþykktinni. Önnur skírteini verða ekki viðurkennd og þar með er komið í veg fyrir að skipstjórnar- og vélstjórnarmenn gegni ábyrgðarstöðum um borð í farþegaskipum og flutningaskipum án löglegra skírteina.

Almennt hefur verið talið að menntun íslenskra sjómanna sé í samræmi við þær lágmarkskröfur sem samþykktin kveður á um enda hafa íslenskir stýrimenn og vélstjórar vandkvæðalaust fengið atvinnuskírteini sín viðurkennd í öðrum löndum. Íslensku sjómannaskólarnir hafa lagað nám og námskrár sínar að samþykktinni. Engin bein úttekt hefur verið gerð af hálfu IMO á menntun sjómanna á Íslandi en í endurskoðuðu samþykktinni er kveðið á um að samningsaðilar skuli senda IMO gögn um framkvæmd hennar innan lands og hvernig menntun og þjálfun sé háttað.

Starfshópur á vegum samgrn. tók saman ítarleg gögn á ensku um framkvæmd menntunar- og þjálfunar sjómanna á Íslandi sem höfðu m.a. að geyma námskrá Stýrimannaskólans í Reykjavík og Vélskóla Íslands, gildandi atvinnuréttindalög og ýmsar reglugerðir því tengdar og voru þau gögn send til Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar í lok júlí 1998.

Í lok síðasta árs var haldinn í Lundúnum fundur siglingaöryggisnefndar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Til umfjöllunar var m.a. áður nefndur hvítlisti yfir þau lönd sem að mati IMO standast kröfur samþykktarinnar um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður farmanna. Á hvítlistanum eru 72 ríki, en 98 ríki sendu inn upplýsingar fyrir 1. ágúst 1998. Þess má geta að aðildarríki Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar eru 135. Nú er orðið ljóst að nafn Íslands prýðir hvítlistann en það er afar mikilvægt vegna þess að það er skilyrði fyrir því að Siglingastofnun Íslands geti gefið út skírteini í samræmi við STCW-samþykktina frá 1995. Með því móti er tryggt að íslenskir farmenn halda vinnu sinni eða fái vinnu á kaupskipum sem sigla undir erlendum fána. Jafnframt þýðir þetta að íslensk kaupskip og skip í eigu íslenskra aðila munu ekki lenda í erfiðleikum í hafnarríkiseftirliti erlendis af þessum sökum. Rétt er að taka fram að ekki verður þó hægt að gefa út umrædd alþjóðaskírteini fyrr en breytingarnar frá 1995 á alþjóðasamþykktinni hafa verið teknar inn í íslenska löggjöf, m.a. í formi þessa frv.

Hæstv. forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frv. verði vísað til hv. samgn. og til 2. umr.