Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 19:02:09 (6932)

2001-04-26 19:02:09# 126. lþ. 113.10 fundur 348. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (heildarlög) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[19:02]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Á þeim árum sem ég var formaður Sjómannafélags Reykjavíkur þá gerði ég það í ein sjö ár, frá 1980--1987, að ég fór ýmist sem háseti eða stýrimaður á kaupskip eða fiskiskip. Ég kynntist þessu mjög vel. Ég sá auðvitað að þar sem skipstjórinn var einn í brúnni var mönnum mjög hætt á þilfari. Þar sem sú regla gilti hins vegar að skipstjórinn kallaði bátsmanninn upp eða 2. stýrimann þá voru menn miklu öruggari. Þá var miklu meira öryggi á þilfari og slysatíðnin ekki sú sama. Ég leyfi mér að fullyrða það.

Ég er ekki maður afturhalds né vil ég stuðla að því að einhver verktakafloti taki yfir sem verði þess valdandi að íslenska fiskiskipaflotanum verði lagt. Ég er ekki að tala um það. Ég er hins vegar að tala um að á þetta þarf að horfa af einhverri skynsemi, út frá því hvernig við getum fækkað slysum og tryggt öryggi um leið og mönnunarmál fiskiskipa eru í góðu jafnvægi. Það leiðir til öryggis og færri slysa. Ef þetta næst saman og gott samstarf tekst milli sjómanna og útgerðarmanna þá er ég ekki í nokkrum vafa um að menn finna einhverjar leiðir í þessu.