Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 19:30:26 (6944)

2001-04-26 19:30:26# 126. lþ. 113.13 fundur 181. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (húsaleigubætur) frv., 195. mál: #A húsaleigubætur# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[19:30]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Skattlagning húsaleigubóta á sama tíma og vaxtabætur eru skattfrjálsar er gróft brot á grundvallarreglu skattaréttar í jafnræðisreglunni. Þetta er niðurstaða nefndar á vegum félmrn. sem falið var að meta reynsluna af húsaleigubótakerfinu. Og það er einmitt, efni þessa frv. sem ég flyt ásamt nokkrum hv. þm. Samfylkingarinnar, að afnema skattlagningu á húsaleigubótum.

Hverjir þurfa að búa við að húsaleigubætur eru skattlagðar á sama tíma og vaxtabætur eru ekki skattlagðar? Það er fólkið á leigumarkaðnum, tekjulægsta fólkið í þjóðfélaginu.

Í Reykjavík árið 1998, svo dæmi sé tekið, fengu 3.500 einstaklingar húsaleigubætur, nemar voru þriðjungur þeirra, einstæðir foreldrar tæp 29%, atvinnulausir rúm 10% og öryrkjar og ellilífeyrisþegar tæp 25%.

Á það vil ég einnig benda að um tiltölulega lága fjárhæð er að ræða fyrir ríkissjóð ef þessi leið verður farin. Útgjöld ríkissjóðs vegna vaxtabóta eru nú 4--5 milljarðar en útgjöld ríkis og sveitarfélaga vegna húsaleigubóta eru 500--600 millj., sem er tífalt minna. Það mundi einungis kosta ríkissjóðs að hætta að skattleggja húsaleigubætur einhvers staðar á bilinu 100--150 millj. Það er nú allt og sumt.

En margsinnis, ár eftir ár, er búið að reyna að fá ríkisstjórnina til að fallast á þessa leið og ég fullyrði, herra forseti, að það er besta kjarabótin sem hægt er ná fram fyrir láglaunafólk að fara þessa leið vegna þess, herra forseti, að málið snýst ekki bara um skattlagningu húsaleigubóta. Barnabætur og námslán skerðast hjá þeim sem fá húsaleigubætur en ekki hjá þeim sem fá vaxtabætur. Húsaleigubætur bætast við tekjur viðkomandi og hafa því áhrif til lækkunar á barnabótum og hafa einnig áhrif á það að lækka námslán.

Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur valið þá leið og ákveðið sjálf að húsaleigubætur skuli teljast til tekna við útreikning námslána, sem vaxtabætur gera ekki. Húsaleigubætur koma því til frádráttar við útreikning námslána. Þannig má því segja að tekjulægstu námsmennirnir sem eru á leigumarkaðnum búi við skerðingu á námsláni, en betur settu námsmennirnir sem eiga sitt eigið húsnæði fá ekki á sig þá skerðingu. Þessi skerðing ein og sér getur auðveldlega samsvarað eins mánaðar námsláni hjá námsmanni. Og það sorglega í þessu er að stjórn lánasjóðsins gæti ákveðið það sjálf án atbeina þingsins að húsaleigubætur teldust ekki til tekna og þá mundu þær ekki skerða námslánin.

Herra forseti. Þetta sýnir okkur að hér er á ferðinni mikið réttlætismál enda má segja að flestir umsagnaraðilar sem hafa tjáð sig um þetta mál mæli eindregið með því að þetta frv. nái fram að ganga. Svo virðist vera, herra forseti, að hér á þingi séu það fyrst og fremst sjálfstæðismenn sem hafa staðið gegn málinu. Það eru því fyrst og fremst vinstri öflin í þjóðfélaginu sem þurfa að taka höndum saman í nýrri ríkisstjórn til þess að þetta mál nái fram að ganga. Ég held að það þurfi að fara þá leið til þess að þetta frv. verði að lögum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa öllu fleiri orð um málið. Ég hef margsinnis rætt þetta hér í ræðustól og fært fyrir því fullnægjandi rök að það sé eðlilegt og sanngjarnt að fara þessa leið. Það eru enn meiri rök fyrir því nú en áður vegna þess að vextir á félagslegum íbúðum og leiguíbúðum hafa verið að hækka. Það þýðir auknar húsaleigubætur og því meiri skattlagningu á lágtekjufólk.

Ég vil líka segja í lokin að Leigjendasamtökin hafa barist mjög fyrir þessu brýna réttlætismáli og það er nú til umfjöllunar hjá umboðsmanni Alþingis.

Herra forseti. Enn og aftur leyfi ég mér að vona að málið fái eðlilega afgreiðslu á þinginu. Það er auðvitað eðlilegt að það fái að koma hér til kasta þingsins á nýjan leik eftir meðferð þess í nefnd.

Herra forseti. Ég er nú ekki alveg örugg á því í hvaða nefnd þetta á að fara. Það ætti sennilega að fara í efh.- og viðskn. Ég geri því tillögu um það. Þetta gæti líka átt heima í félmn. Hér er aðallega verið að breyta tekjuskattslögum þó að fylgifrv. snerti líka breytingar á Íbúðalánasjóði. En meginbreytingin er á skattalögum Ég legg því til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og efh.- og viðskn. og vona, herra forseti, að það fái farsælan framgang í þeirri nefnd og komi aftur hér til atkvæðagreiðslu.