Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 30. apríl 2001, kl. 15:54:36 (7058)

2001-04-30 15:54:36# 126. lþ. 115.14 fundur 648. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (atvinnurekstrarleyfi) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 126. lþ.

[15:54]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara því nægilega skýrt sem ég var í raun og veru að velta fyrir mér. Ég tók fram í upphafi að ég væri ekki að setja mig á móti þessu frv. sem slíku heldur að ég óskaði eftir því að menn skoðuðu þetta vandlega og óskaði eftir svörum ráðherra um það hvort hann teldi að þessi áhrif gætu orðið eins og ég var að lýsa. Ég er ekkert viss um þetta en mér finnst samt að ástæða sé til að hafa áhyggjur af því að íslenskir atvinnurekendur mundu sjá sér færi á því, úr því verið er að létta þessum hömlum af, að fá erlenda verkamenn til starfa á Íslandi undir verktakaforminu. Ég sé í fljótu bragði ekki neitt sem kemur þá í veg fyrir að þannig verði.

Mér finnst satt að segja mjög áhugavert að velta því fyrir mér hvaða stöðu íslenskt verkafólk hefur í samkeppninni við slík fyrirtæki sem væru stofnuð af erlendum verkamönnum sem kæmu hingað. Við skulum segja að fjölskyldur erlends verkafólks sem kæmi hingað stofnuðu einkafyrirtæki og seldu þjónustu sína út á verði sem væri langt undir öllum töxtum sem gilda í slíkri vinnu á Íslandi. Hvaða stöðu hefðu menn gagnvart þessu fyrirtæki? Ég er ekki viss um að það væri svo þægilegt að gera mikið í málinu.

Það er þetta sem ég hef áhyggjur af og bið menn að velta vandlega fyrir sér þegar þeir skoða þetta, ekki endilega út frá því sjónarmiði að hætta við frv., heldur hvort það eigi að leita eftir einhverjum leiðum til að sjá til þess að samningar sem gilda hér almennt á vinnumarkaðnum haldi.