Stjórnsýsla á varnarsvæðinu á Miðnesheiði og Keflavíkurflugvelli

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 10:19:50 (7232)

2001-05-09 10:19:50# 126. lþ. 117.1 fundur 703. mál: #A stjórnsýsla á varnarsvæðinu á Miðnesheiði og Keflavíkurflugvelli# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[10:19]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Núverandi skipulag í þessum efnum er ekkert hugsað sem sérstök stimamýkt við varnarliðið heldur til þess eins að gera þessi samskipti sem eru okkur á ýmsa lund framandi, sem þægilegust, skilvirkust og gegnsæjust, og ekki hefur verið sýnt fram á að breytingar á núverandi fyrirkomulagi mundu reynast til bóta. Skörun hluta yrði það mikil að líklegra er að aðkoma fleiri ráðuneyta að stjórnkerfinu á Keflavíkurflugvelli, jafnvel að því sem snýr að borgaralegum þáttum, yrði til þess fallin að gera stjórnkerfið óskilvirkara og óljósara og takmarkatilfellin fleiri. Það er meginregla að vera ekki að breyta því sem vel reynist nema menn séu sannfærðir um að breytingarnar séu til bóta. Það erum við ekki sannfærðir um og þess vegna verður þessu ekki breytt.