Reikningsskil og bókhald fyrirtækja

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 11:02:00 (7248)

2001-05-09 11:02:00# 126. lþ. 117.4 fundur 691. mál: #A reikningsskil og bókhald fyrirtækja# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[11:02]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég tel að hv. þm. hreyfi hér mikilvægum málefnum sem reyndar er verið að vinna að á vegum fjmrn. og ríkisstjórnarinnar. Verðbólgureikningsskilin voru tekin upp á árunum fyrir 1980 af illri nauðsyn, vegna þess hversu mjög verðbólgan á Íslandi skekkti ársreikninga fyrirtækja og sýndi ranga mynd af raunverulegri rekstrarstöðu og stöðu eigna í lok árs.

Ég vil taka það fram strax að ég er hlynntur því að stefnt verði að því að afnema verðbólgureikningsskilin í uppgjöri fyrirtækja. Þegar verðbólga er lítil er einfaldlega ekki sama þörf á slíkum leiðréttingum og þegar verðbólgustigið er hátt. Við þær aðstæður sem skapast hafa hér á landi á undanförnum árum er þetta því raunhæf spurning sem hv. þm. ber hér fram og reyndar margir aðrir við önnur tækifæri. Það er mikilvægt að hafa hliðstæðar reikningsskilareglur fyrir íslensk fyrirtæki og gilda í helstu samkeppnislöndum okkar.

Eins og ég sagði hefur mál þetta verið til skoðunar í fjmrn. Þar er starfandi nefnd sem mun skila áliti um málið innan skamms. Ljóst er að afnám verðbólguleiðréttinga í skattskilum hefur í för með sér talsverðar breytingar á tekjum ríkissjóðs og skattbyrði fyrirtækjanna. Tilfærslur yrðu á skattbyrði fyrirtækjanna, þar sem fyrirtæki með verðbólgutekjufærslu mundu væntanlega fá lægri skatt en fyrirtæki með gjaldfærslu mundu fá hærri skatt. Þá verða væntanlega einhverjar tilfærslur á skattbyrði milli atvinnugreina. Einnig er ljóst að við afnám verðbólguleiðréttinga þyrfti að gera umfangsmiklar breytingar á mörgum ákvæðum laganna um tekjuskatt og eignarskatt, líklega á um það bil 22 greinum laganna.

Áður en unnt er að taka ákvörðun um þetta mál er hins vegar nauðsynlegt að gera sér fulla grein fyrir öllum afleiðingum þess á fyrirtækin og ríkissjóð. Þar sem lögaðilum hefur verið gert að skila stöðluðu skattframtali með ítarlegum upplýsingum um rekstur og efnahag á undanförnum tveimur árum er unnt að fá meiri og áreiðanlegri upplýsingar til að byggja á en áður. Nú er verið að vinna úr þessum upplýsingum. Þegar þær niðurstöður liggja fyrir verða til staðar forsendur til að taka ákvörðun í málinu.

Önnur spurningin lýtur að því hvort íslensk fyrirtæki geti gefið út hlutabréf í erlendri mynt og skráð þau á Verðbréfaþingi Íslands og hvort ég sé hlynntur því. Ég vil fyrst taka það fram að hvorki hlutafélagalögin né málefni Verðbréfaþingsins heyra undir fjmrn.

Almennt má þó nefna að eftir því sem best er vitað skrá einstakar kauphallir í heiminum yfirleitt hlutabréf í aðeins einni mynt, þ.e. þess ríkis sem kauphallirnar starfa í. Hlutabréf ýmissa alþjóðafyrirtækja eru skráð í kauphöllum í fleiri ríkjum en einu. Viðskiptin fara þá fram í mynt hvers og eins viðkomandi ríkja. Þótt íslensk fyrirtæki muni að uppfylltum skilyrðum, samanber það sem hér kemur fram síðar varðandi heimild til þess, færa bókhald og gera upp í erlendri mynt leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að rök standi til að viðkomandi fyrirtæki geti gefið út hlutabréf í erlendri mynt og skráð á Verðbréfaþingi Íslands. Í þessu sambandi má benda á að einstök fyrirtæki kynnu að hafa valið mismunandi bókhalds- og uppgjörsmynt en gætu síðan gefið út hlutabréf í viðkomandi mynt og skráð á Verðbréfaþinginu. Yrði fjöldi þeirra mynta sem þar yrði í notkun væntanlega meiri en dæmi eru um annars staðar. Í því fælist þá einnig að á íslenska fjárfesta, sem viðskipti ættu með hlutabréf slíkra hlutafélaga, tæki að leggjast kostnaður vegna gjaldeyrisyfirfærslna sem ekki er um að ræða sem stendur. Þrátt fyrir þetta tel ég fyllstu ástæðu til að þeir sem um þetta eiga að fjalla skoði málið nánar.

Þriðja spurningin lýtur að því hvort ég sé hlynntur því að íslensk fyrirtæki sem stunda umfangsmikil viðskipti erlendis geti valið um að færa bókhald og semja ársreikning í erlendri mynt eingöngu. Um þetta hefur orðið nokkur umræða í landinu undanfarin missiri. Þegar hafa verið sett ákvæði um notkun á erlendum gjaldmiðli við bókhald og reikningsskil í lögum um alþjóðleg viðskiptafélög. Samkvæmt því ákvæði getur fjmrh. heimilað félagi sem starfar samkvæmt lögunum um þau að færa bókhald sitt og reikningsskil í tiltekinni erlendri mynt í samræmi við góða reikningsskilavenju.

Enn fremur eru í nokkrum samningum sem Ísland hefur gert við erlend félög sem starfa á Íslandi ákvæði um reikningshald í viðkomandi erlendum myntum. Samkvæmt íslenskum lögum er ekkert sem bannar fyrirtækjum að semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli samhliða eða jafnhliða íslenskum krónum hvort sem það er gert með því að færa bókhaldið samhliða í erlendum gjaldmiðli eða ársreikningurinn er umreiknaður í viðkomandi gjaldmiðil eftir á, en ákveðinn kostnaður er því samfara og óhagræði að vera með hvort tveggja. Umræðan um erlendan gjaldmiðil í íslensku bókhaldi og ársreikningum hlýtur því að snúast um að hann komi í stað íslensku krónunnar. Þau fyrirtæki sem helst telja sig hafa hag af því eru væntanlega þau fyrirtæki sem eru í beinni samkeppni við erlend félög og hafa viðskiptahagsmuna að gæta á alþjóðlegum viðskipta- og fjármálamörkuðum.

Ég vil bæta því við að færsla viðskipta í evru eða öðrum erlendum gjaldmiðli í bókhaldi íslenskra fyrirtækja mundi væntanlega auðvelda fjárhagslegan samanburð við erlend fyrirtæki. Gengisfellingar hafa víðtæk áhrif á ársreikninga íslenskra fyrirtækja vegna þess að þau eru mörg hver fjármögnuð með erlendu fjármagni og fá tekjur og greiða gjöld í erlendum gjaldmiðli. Vegna breytinga á gengi getur afkoman orðið sveiflukennd og rekstrarafkoma óstöðug milli ára.

Ég mun ljúka við þetta svar, herra forseti, þegar ég fæ tækifæri til að koma upp í annað sinn.