Hátæknisjúkrahús

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 12:19:19 (7276)

2001-05-09 12:19:19# 126. lþ. 117.11 fundur 608. mál: #A hátæknisjúkrahús# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[12:19]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Út af því sem fram kom hjá hæstv. heilbrrh. má ég til með að nefna að fyrir nokkrum missirum var samþykkt tillaga um nefnd sem skoða átti skörun verkefna milli félags- og heilbrigðissviða. Nefndin hóf störf og sú sem hér stendur var kosin í hana. Það hentaði hins vegar hæstv. forsrh. að setja nefndina af og bendi hæstv. heilbrrh. á það.

Ég ber fram spurningu til hæstv. heilbrrh. um hátæknisjúkrahús. Eiginlega er hún þríþætt:

Eru uppi áform um að byggja hátæknisjúkrahús hérlendis? Hefur farið fram athugun á því hvar slíkt sjúkrahús yrði reist ef af yrði? Kemur til greina að hafa slíkt hátæknisjúkrahús í landi Vífilsstaða?

Á Alþingi hefur ekki farið fram mikil umræða um langtímamarkmið varðandi sjúkrahúsbyggingar. Bygging barnaspítala var ótrúlega lengi í umræðunni þar til hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hleypti því máli af stokkunum þegar hann var heilbrrh. Enn er langt þar til fullbúinn barnaspítali getur tekið á móti börnum. Samkvæmt fréttum eftir að fyrirspurn mín var lögð fram --- ég verð auðvitað að geta þess að þessi fyrirspurn er arfur frá fyrrv. heilbrrh. --- eru stjórnendur Landspítalans ásamt erlendum ráðgjöfum að skoða framtíð spítalans og hvort þróa eigi meginstarfsemi á annarri hvorri lóðanna við Hringbraut eða í Fossvogi eða byggja nýjan spítala frá grunni, t.d. í landi Vífilsstaða.

Tilefni fyrirspurnar minnar er bréf sem bæjarstjórn Garðabæjar sendi heilbrrh. í desember sl. og hafði enn ekki verið svarað þegar fyrirspurn mín var lögð fram. Í því bréfi hvetur bæjarstjórn Garðabæjar ríkisstjórn og heilbrigðisyfirvöld til að kanna hvort fýsilegt sé að byggja hátæknisjúkrahús í landi Vífilsstaða. Bendir bæjarstjórnin á ýmis rök fyrir ágæti þess, svo sem umtalsvert landrými, greiðar umferðarleiðir að svæðinu og þróun skipulags höfuðborgarsvæðisins sem geri land Vífilsstaða mjög miðsvæðis en gengið er út frá því að hátæknisjúkrahús eigi að vera miðsvæðis í þéttbýlinu. Annars vegar eru þessar spurningar vangaveltur um aðgerðir á næstu árum hjá spítalanum. Hins vegar spyr ég hvenær verði unnt að mæta breyttum tímum. Væntanlega kemur að því að vinnutækni, breyttar kröfur og nýjungar kalli. Ég hlýt að spyrja: Hverju er spáð um breytingar í þessum efnum?

Það verður áhugavert að heyra viðbrögð hins nýja ráðherra. Ég nota tækifærið og óska honum heilla í starfi við þessi fyrstu skoðanaskipti við hann. Spurningin er: Munum við byggja á því sem fyrir er, bæta við og endurskipuleggja eða verður stefnt að byggingu hátæknisjúkrahúss og þá hvenær?