Skólaskip fyrir grunnskólanemendur

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 12:57:47 (7289)

2001-05-09 12:57:47# 126. lþ. 117.13 fundur 696. mál: #A skólaskip fyrir grunnskólanemendur# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 126. lþ.

[12:57]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. fyrir mjög skýr og greinargóð svör. Mér fannst einnig þessi lýsing á starfinu um borð og því sem verið er að kynna fyrir ungmennum mjög góð og sönn lýsing hjá hæstv. ráðherra, þannig að ég er mjög ánægður með það hvernig þetta hefur verið borið fram hér í þinginu.

Ég er einnig mjög ánægður með að hæstv. ráðherra lýsir yfir vilja ráðuneytisins til þess að leggja sitt af mörkum til að þessi rekstur megi halda áfram, þó svo við eigum við ákveðin vandamál að etja gagnvart sveitarfélögunum. Og ég tek undir að mjög erfitt er að sjá hvernig hægt verði með óbreyttum rekstri --- ef sveitarfélög vilja ekki vera með --- að útiloka skólabörn frá þeim sveitarfélögum þar sem sveitarstjórnirnar sýna engan vilja til þátttöku. Það er því augljóst að þetta verður trúlega að vera meira og minna í höndum ríkisins um tíma, en það má nú reyna eina atlögu enn við sveitarfélögin og vita hvort ekki sé hægt að auka skilning á þessu mjög mikilvæga verkefni.

Ég held, herra forseti, að þegar kemur að því að fá fjármagn til að mæta þeim helmingi sem hæstv. sjútvrh. er tilbúinn til að leggja fram, þá komi til kasta Alþingis. Ég á ekki von á öðru en að á Alþingi sé meiri hluti fyrir því að halda þessum rekstri áfram fyrst hæstv. sjútvrh. fyrir sitt leyti tekur svo vel í að gera það.