Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 09. maí 2001, kl. 15:19:19 (7316)

2001-05-09 15:19:19# 126. lþ. 118.8 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 126. lþ.

[15:19]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það er dálítið einkennilegt að standa hér og vera í því hlutverki, miðað við ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar, að vinna gegn hagsmunum Vestfjarða sem ég tel mig alls ekki vera að gera með því að leggja þetta frv. fram. Allt málið, allur undirbúningur er unninn í samvinnu við Vestfirðinga og reyndar að beiðni þeirra að taka á þessu máli þannig að ég get ekki annað, hæstv. forseti, en vísað á bug þeim ásökunum hv. þm. sem mér fannst koma fram í minn garð, að vegið væri að Vestfirðingum í málinu.

Hvað varðar orkumálin og orkuöflun, og jafnvel fannst mér hv. þm. ýja að því að fyrirtækið Norðurál keypti hluta í orkubúinu, þá finnst mér sú hugmynd í raun stangast á við þá brtt. sem hv. þm. hefur lagt fram, sem gengur út á það að ekki megi selja neitt fyrr en 2004, því að eins og hv. þm. veit eflaust er það svo að það fyrirtæki sem hér var nefnt þarf að fá afhenta orkuna á því ári til þess að áætlanir geti staðist um stækkun um 90 þúsund tonn.

Um virkjunarkosti á Vestfjörðum að öðru leyti ætla ég ekki að hafa mörg orð vegna þess að þau mál eru einfaldlega ekki komin það langt að þau séu alveg á döfinni núna en auðvitað vonumst við öll til þess að þar séu nothæfir og álitlegir virkjunarkostir.

Um brtt. almennt vil ég segja að ég efast um að hún standist ákvæði stjórnarskrár um sjálfstæði sveitarfélaga því að með henni mundi valdið vera tekið af sveitarfélögunum um að selja hugsanlega hlut sinn í orkubúinu eftir að frv. væri orðið að lögum, enda heyrðist mér hv. þm. vera svolítið að slá af í sambandi við þá tillögu. Hann boðaði það a.m.k. að flytja hugsanlega aðra tillögu, að þessari tillögu fallinni, sem við verðum að sjá til hvað verður um, en þetta var misskilningur í máli hans.

Ég held að í öllum aðalatriðum sé þetta mál skýrt í hugum þingmanna. Ég tel að hv. þm. sé að einhverju leyti að fiska í gruggugu vatni þegar hann heldur slíka ræðu eins og hann gerði hér. Auðvitað má lesa upp úr leiðurum blaða, þau geta verið hápólitísk og haft aðra stefnu en stjórnvöld og ég held að ekkert sé nema gott um það að segja.

En mér finnst að málið horfi þannig við að við séum að verða við óskum Vestfirðinga og í samvinnu við þá, samvinnu við sveitarfélögin um að leggja fram frv. sem menn eru sjálfsagt mjög misánægðir með eins og oft er, en engu að síður var samhljóða álit þeirra aðila sem að málinu komu að rétt væri að leggja þetta frv. fram, fá félaginu breytt í hlutafélag þannig að hvert sveitarfélag geti þá tekið sjálfstæða ákvörðun um hvort það vilji selja hlut sinn í félaginu eða ekki.

Þetta er málið í hnotskurn. Það er engan veginn svo að þessu hafi verið þvingað upp á einn eða neinn. Þetta er flutt í samvinnu við þá aðila sem eiga í þessu fyrirtæki.