Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 12:40:18 (7354)

2001-05-10 12:40:18# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[12:40]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Í þessari framsögu minni sem verður stutt mun ég aðeins stikla á stóru og gera grein fyrir helstu áherslum í afstöðu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs til þessa máls en mun síðan fara ítarlegar yfir málið í ræðum síðar í dag. Það er löngu vitað um áhuga fjármálamanna á því að einkavæða ríkisbankana og reyndar aðrar eignir ríkisins. Það hefur líka verið ljóst að síðustu tíu ár hafa setið ríkisstjórnir undir forsæti Sjálfstfl. sem hafa verið mjög hallar undir sjónarmið af þessu tagi. Hins vegar hafa raunveruleg áform sjaldnast verið opinberuð fyrr en að afloknum kosningum og má ætla að ástæðan sé sú að andstaðan gegn einkavæðingunni er mjög mikil á meðal þjóðarinnar. Þetta skýrir án efa þá aðferðafræði sem hefur verið beitt við einkavæðinguna á bönkunum sem öðrum eignum þjóðarinnar. Í nál. frá 2. minni hluta efh.- og viðskn., sem ég skrifa undir, er saga þessa máls rakin ítarlega og sýnt hvernig menn hafa fetað sig áfram í þessu ferli.

Ljóst er að þrýstingur einkaaðila að fá eignir ríkisins á markað og fá þær seldar, helst sem fyrst, hefur vaxið í seinni tíð því að þessar eignir hafa hríðfallið í verði. Þetta er einmitt ein ástæðan fyrir því að menn hafa varað mjög eindregið við því af hálfu stjórnarandstöðunnar að fara hratt í sakirnar í þessum efnum. Að þessu leyti er stjórnarandstaðan sameinuð. Við höfum hins vegar ekki verið á einu máli, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn, um áherslur varðandi einkavæðinguna.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt áherslu á að á Íslandi væri starfandi öflugur þjóðbanki. Við teljum mörg rök mæla með því að svo sé og höfum sagt að til álita kæmi að skoða möguleika á sameiningu ríkisbankanna tveggja, þeirra banka sem ríkið á meirihlutaeign í.

Ástæðan fyrir að mikilvægt kann að vera fyrir íslenskt efnahagslíf að hafa öflugan þjóðbanka er að sporna gegn varasömum afleiðingum þeirrar miklu samþjöppunar á valdi og peningum sem nú stefnir í í íslensku efnahagslífi. Líklegt má heita að sömu aðilar og komist hafa yfir miklar eignir í atvinnulífinu nái einnig tökum á fjármálakerfinu. Hætt er við því að eignist þessir aðilar bankanna kæmu þeir til með að lána sjálfum sér fé úr hirslum þeirra og þar með væri boðið heim hættunni á misbeitingu þessara mikilvægu undirstöðustofnana í efnahagslífi þjóðarinnar.

Hverjar hafa þá verið tillögur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs? Í fyrsta lagi að hér verði starfræktur öflugur þjóðbanki líkt og gerist í sumum öðrum löndum og tíðkaðist fyrr á tíð. Í Noregi á ríkið t.d. drjúgan hlut í Den norske Bank og er athyglisvert að ríkið þar eignaðist drjúgan hlut í bankakerfinu í tengslum við bankakrísuna sem þar reið yfir fyrir um áratug. Þá gerðist það að ríkið varð að hlaupa undir bagga með gríðarmiklu fjármagni, um 500 milljörðum kr., til að bjarga bankakerfinu frá algeru hruni eða koma í veg fyrir verstu áföllin í efnahagslífinu. Við þetta eignaðist ríkið hlut í bankakerfinu og við erum þeirrar skoðunar að þeir sem bera raunverulega ábyrgð með þessum hætti eigi einnig að hafa stjórnunarlegt vald eða möguleika til að hafa völdin á hendi auk þeirra ástæðna sem ég rakti áðan, að koma í veg fyrir einokun á markaði. Út á það gengur reyndar tillaga sem við höfum flutt um dreifða eignaraðild. Þetta er eins konar varatillaga. Við gerum okkur grein fyrir því að meiri hluti er fyrir því á Alþingi að einkavæða og selja þessar mikilvægu fjármálastofnanir. Þess vegna lögðum við fram frv. á Alþingi fyrir allnokkru um dreifða eignaraðild bankanna.

Þetta var gert með það í huga að sjónarmið Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs yrðu ofurliði borin og ráðist í sölu fjármálastofnana sem verið hafa í almannaeign. Í greinargerð með því frv. segir, með leyfi forseta:

,,Óþarfi er að fara mörgum orðum um tilefni þessa frumvarps. Mikil umræða hefur verið um sölu á eignarhlut ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og reyndar einnig áður um stofnun þess banka og breytingu ríkisviðskiptabankanna í hlutafélög. Mikið vantar á að vandað hafi verið til vinnubragða í þessu sambandi þó svo að horft sé fram hjá pólitískum ágreiningi um þessar breytingar sem slíkar.``

Síðan gerum við grein fyrir þeim tillögum sem settar eru fram í þessu frv. Þegar það var rætt á Alþingi fékk það góðan hljómgrunn. Undir sjónarmið okkar tók m.a. hæstv. forsrh. og ýmsir hv. þm. Ég minnist þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal tók undir þessi sjónarmið, að þau yrðu a.m.k. könnuð, hvernig unnt yrði að tryggja dreifða eignaraðild. En svo fór þegar málið kom í efh.- og viðskrn. að þar var það látið sofna svefninum langa og þunga, enda höfðu sterkir aðilar í fjármálalífi þá sagt sitt um það frv., þ.e. að þeir vildu ekki að það næði fram að ganga.

Ég ætla á þessu stigi ekki að fara nánar í þessi mál. Ég mun gera það mun ítarlegar þegar ég kem inn í umræðuna síðar í dag en þetta eru þau sjónarmið sem við höfum lagt áherslu á í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Við höfum lagst gegn þessari einkavæðingu og varað við því að hún leiði til þess að völd og peningar, fjármagn safnist á fáar hendur í landinu og gegn því viljum við sporna og höfum lagt fram tillögur þess efnis.