Nýjar hugmyndir um skipan og starfshætti Rannsóknarráðs Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 13:56:00 (7370)

2001-05-10 13:56:00# 126. lþ. 119.95 fundur 524#B nýjar hugmyndir um skipan og starfshætti Rannsóknarráðs Íslands# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Sjálfsagt má halda því fram að á köflum geti hæstv. menntmrh. verið gamansamur en ég verð að játa að ég tók ekkert sérstaklega eftir því í þeirri ræðu sem hann flutti áðan. Hins vegar getur vel verið að grínið hafi birst í því að hæstv. ráðherra talaði um að núverandi fyrirkomulag hefði eiginlega verið hornsteinn í þeim mikla hagvexti sem við hefðum búið við undanfarin ár. Þó er ætlunin að breyta því fyrirkomulagi sem virðist hafa verið hornsteinn að þeim hagvexti sem hefur ríkt hér undanfarin ár eins og hæstv. ráðherra komst að orði.

Hins vegar hafa þeir hv. þm. stjórnarliðsins sem hér hafa talað, t.d. hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, flutt hér hinar ágætustu ræður og ég held ég geti tekið undir nánast allt sem hún sagði, en enginn vill segja okkur hvað hæstv. ráðherrar eiga að gera í þessu starfi. Ég verð að taka undir að ég veit ekki til þess að þessir hæstv. ráðherrar hafi verið mótandi á vísinda- og tæknisviðinu í gegnum tíðina. Ekki hafa þeir stundað rannsóknir sjálfir. Ég átta mig ekki á því, virðulegi forseti, hvaða erindi þeir eiga nákvæmlega í þetta, nema ef vera kynni, eins og hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir orðaði það í upphafsræðu sinni, að verið sé að stytta leiðina frá úthlutununum til pólitíkusanna. (SAÞ: Þetta er útúrsnúningur.) Kannski er þetta kjarni málsins.

Annað sem skiptir líka máli, af því að hæstv. forsrh. hefur sí og æ talað um það að í stjórnartíð hans hafi verið ætlunin að minnka völd stjórnmálamanna. Nú á að breyta Rannsóknarráðinu með þeim hætti sem hér er lagt til og þar komi inn sjö ráðherrar sem skipta máli. Satt best að segja minnir þetta mig dálítið á Mjallhvíti og dvergana sjö.