Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 14:23:17 (7379)

2001-05-10 14:23:17# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, SvH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Sverrir Hermannsson (andsvar):

Herra forseti. Mig munar ekkert um að biðja hv. þm. velvirðingar á því ef ég hef kveðið of fast að orði um málflutning hans.

En hvað um þá afstöðu handhafa valdsins sem ætlar að selja þessi fyrirtæki? Þá afstöðu sem kemur glöggt fram í því að hann ber hag kaupendanna fyrir brjósti fyrst og fremst en ekki hag umbjóðenda sinna, almennings í landinu. Hvað um það?

Er þá ekki komið að því sem er orðið mjög sérkennilegt í mínum gamla flokki, sem er afstaðan til hins frjálsa markaðar? Þar sem allir eiga að keppa á jafnréttisgrundvelli eins og t.d. í sjávarútvegsmálum, þá er auðlindin tekin fyrst og úthlutað gefins til örfárra útvalinna en síðan eiga menn víst að keppa eins og þetta sé frjáls markaður. Og frelsið á þessum markaði verður þannig, ef á að halda þann veg á málum eins og fram kemur í orðræðum ráðamanna, ég held að ýmsum muni þykja þröngt fyrir sínum dyrum.

Og enn má minna á, sem fram kom hér, að láðst hefur og það virt að vettugi að hafa nauðsynlegt samráð við þann mikla fjölda starfsmanna sem vinnur í þessum stofnunum og hefur gert um árabil.