Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 16:27:04 (7390)

2001-05-10 16:27:04# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[16:27]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil að sú skoðun mín komi fram að líti maður á stærð íslenska hlutabréfamarkaðarins og til þess hve hann mundi stækka mikið við sölu á eignarhlut ríkissjóðs í Búnaðarbankanum, Landsbankanum og Landssímanum á næstu tveimur árum, þá tel ég að það mundi ekki valda neinum vandræðum. Ég bendi á að við sölu ríkisbankanna á sínum tíma hefði auðveldlega verið hægt að selja allt hlutafé ríkissjóðs í báðum bönkunum. Slík var eftirspurn almennings á þeim tíma eftir hlutabréfum. Ég tel að ekki muni verða neinn vandi að selja þessa banka.

Varðandi Landssímann þá tel ég að það mundi tvímælalaust styrkja hlutabréfamarkaðinn sem slíkan að fá fyrirtæki af þeirri stærðargráðu og í þeirri atvinnugrein inn á markaðinn. Ég bendi líka á að Landsbankinn jók hlutafé sitt í fyrra um 5% og fékk dótturfyrirtæki First Union Bank sem eignaraðila að 4% hlut í bankanum.

Ég vil líka vekja athygli á því að hv. þm. ræðir hér um að fá eigi sem hæst verð fyrir bankana. Markaðurinn metur að sjálfsögðu verðmæti bankanna á hverjum tíma og því finnst mér það skjóta dálítið skökku við að ein af breytingartillögum Samfylkingarinnar er að áður en sala á hlutafé ríkissjóðs hefjist skuli deila 10% af hlutafé jafnt milli allra íslenskra ríkisborgara og að óheimilt verði að selja hlutabréf sem útdeilt er með þessum hætti fyrr en að þremur árum liðnum. Þetta finnst mér ekki koma heim og saman við það að fá eigi sem hæst verð fyrir bankana.