Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 19:59:56 (7413)

2001-05-10 19:59:56# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[19:59]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Við ræðum hér viðamikið mál sem tekist hefur verið á um árum saman í íslensku samfélagi. Ekki er útséð um þau átök. Mér finnst lítil reisn yfir framlagi stjórnarliða við þessa umræðu, þ.e. þátttöku þeirra og virkni. Ég tel að þar mætti bæta úr. Ég hygg að það sé óhjákvæmilegt að hæstv. viðskrh., sem ég veit að er í húsinu, sé í það minnsta viðstödd umræðuna. Einnig hefur staðið vaktina hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn. sem um málið hefur vélað. Ég held að heppilegast sé að ég bíði með að hefja ræðu mína þar til annað hvort þeirra eða bæði verða hér á staðnum. Mér liggur svo sem ekkert á og get beðið hér.

(Forseti (ÍGP): Vegna orða hv. þm. hefur forseti þegar í látið sækja hæstv. viðskrh. sem er hér í húsi. Forseti mun athuga með ferðir hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, en hann mun vera hér skammt undan.)

Jafnvel þótt hv. þm. Vilhjálmur Egilsson væri fjarri góðu gamni þá teldi ég lágmark að hér væri a.m.k. fulltrúi Sjálfstfl. í viðkomandi nefnd. Ég gæti fellt mig við það.

(Forseti (ÍGP): Forseti mun láta kalla út fulltrúa sjálfstæðismanna í viðkomandi nefnd.)

Herra forseti. Mér finnst dálítill kliður í salnum, en það kannski lagast fljótt. Ég get svo sem staðið hér en ég býð upp á að forseti geri hlé á þessum fundi í tvær, þrjár mínútur þar til ráðherrann má vera að því að koma til fundarins.

(Forseti (ÍGP): Forseti gerir hlé á þessum fundi í fimm mínútur.)