Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Fimmtudaginn 10. maí 2001, kl. 21:34:28 (7428)

2001-05-10 21:34:28# 126. lþ. 119.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 126. lþ.

[21:34]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. kveinkaði sér hér undan málefnalegri gagnrýni Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og sagði að við yrðum að skilja að Framsfl. væri framsækinn flokkur og frjálslyndur. Nú langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra:

Í hverju birtist frjálslyndi Framsfl.? Í að loka pósthúsum á landsbyggðinni og segja þar upp starfsfólki? Að einkavæða elliheimilin í landinu? Að einkavæða barnaskóla í Hafnarfirði?

Birtist frjálslyndi Framsfl. í því að aflétta álögum á hlutabréfagróða?

Birtist frjálslyndi Framsfl. í því að skerða barnabætur?

Birtist frjálslyndi Framsfl. í að ganga erinda stóriðjuhagsmuna á kostnað almennings í landinu?

Birtist frjálslyndi Framsfl. í að brjóta stjórnarskrá á öryrkjum og hafa af þeim réttmætar bætur?

Birtist frjálslyndi Framsfl. í því að lækka skattleysismörk og íþyngja sérstaklega lágtekjufólki á Íslandi?

Birtist frjálslyndi Framsfl. í því að standa gegn öllum tillögum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um endurreisn velferðarkerfisins, standa gegn öllum tillögum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um endurreisn í atvinnumálum, um byggðaþing, sem hæstv. byggðamálaráðherra þáv. lagðist sérstaklega og hart gegn hér í þingsölum? Birtist frjálslyndi Framsfl. á þennan hátt?

Framsfl. er lítill, hræddur flokkur, sem á sér þá hugsjón eina að sýnast framfarasinnaður og frjálslyndur og þóknast íhaldinu í landinu.