Virðisaukaskattur

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 12:20:35 (7517)

2001-05-11 12:20:35# 126. lþ. 120.27 fundur 686. mál: #A virðisaukaskattur# (hópferðabifreiðar) frv. 57/2001, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[12:20]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þau svörin. Þau skýrðu stöðu mála. Ég tel ástæðu til að kanna hvaða hagsmunir eru í húfi, hvaða aðilar gera út bifreiðar á bilinu 12--18 manna eins og hv. þm. minntist á að lendi þarna á milli. Hvaða máli mundi skipta ef þeir fengju einnig að vera með eða áttu þeir einhverja aðkomu að málinu? Ég óska þess, virðulegi forseti, fari málið aftur til umfjöllunar í nefnd, að þetta atriði verði skoðað.

Ég sat fund í efh.- og viðskn. þegar þetta var rætt eftir 1. umr. Þá var einmitt verið að velta fyrir sér hvar stærðarmörkin ættu að vera. Mér finnst eðlilegt að fyrir liggi gleggri greinargerð um hvers vegna þessir bílar, 12--18 manna, í hópferðaflutningum fá þá ekki að vera með. Ég legg áherslu á það, herra forseti, að ég tel að skoða eigi vandlega hvort þeir megi ekki fylgja með og fá þá leiðréttingu sem þarna er verið að gera. Leigubílarnir fá niðurfelld gjöldin en þarna er einhver fjöldi bíla í skipulegum hópferðum sem lendir utan við. Ég teldi ástæðu til að þetta yrði skoðað, herra forseti.