Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 15:24:44 (7547)

2001-05-11 15:24:44# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[15:24]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði er ég þeirrar skoðunar að þetta sé jákvætt fyrsta skref. Það kann að vera lítið en við megum ekki gleyma því að hæstv. landbrh. lýsti því sem ákvörðun sinni að fara að tillögum þessarar grænmetisnefndar. Nú áskil ég mér fullan rétt til að vera ósammála niðurstöðum hennar þegar þær koma að lokum. En ég er sammála þessu fyrsta skrefi. Það á að byrja á því að afnema alla tolla á grænmetistegundum sem ekki eru framleiddar innan lands.

Í annan stað hefur umræðan, ekki síst á hinu háa Alþingi, orðið til þess að þeir ósvífnu viðskiptajöfrar sem hafa vélað með grænmeti, ekki síst í smásöluverslun, hafa lækkað álagningu hjá sér. Það sem við sjáum núna í framhaldi af umræðunni sem hefur orðið hér og í fjölmiðlum er gríðarleg lækkun á tilteknum grænmetistegundum og það er mjög af hinu góða. Þess vegna get ég beðið fram á haustið þegar næsta skref verður stigið, þ.e. þá mun afgangurinn af tillögum nefndarinnar koma samkvæmt því sem hún segir í greinargerðinni sem er á heimasíðu ráðuneytisins. Ég ætla hins vegar, eins og ég sagði, að áskilja mér allan rétt til að vera ósammála þeim ef þær eru þess eðlis.

Síðan vil ég segja að ég er ekki sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um samkeppnismöguleika innlendu framleiðslunnar. Mér fannst hann tala af fullmiklu vonleysi um stöðu hennar. Hv. þm. nefndi að hún hefði umfram annað mikil gæði. Ég er sammála því. Það hlýtur auðvitað að bæta samkeppnisstöðuna. Í annan stað má ekki horfa fram hjá fjarlægðarverndinni sem hv. þm. gleymdi að geta um en það er ígildi 7--10% munar á verði. Þar eru því líka komin skilyrði sem hjálpa innlendu framleiðslunni. Þessu til viðbótar held ég líka að nefna megi ýmislegt annað eins og rafmagnsverðið, jafnvel þótt hv. þm. segi að það skipti ekki sköpum en það munar auðvitað um það ef það er svo að rafmagn til þessarar framleiðslu sé fjórum sinnum dýrara en í ýmsum samkeppnislöndum.