Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 16:19:24 (7563)

2001-05-11 16:19:24# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[16:19]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar barist fyrir auknu frelsi í atvinnulífinu, lækkun skatta og álögum á fyrirtæki og hún vill bæta stöðu neytenda með sölu ríkisfyrirtækja og aukinni samkeppni og hækka launin og þau hafa hækkað sem aldrei fyrr. Allt er þetta gert til þess að bæta kjör Íslendinga og íslensks alþýðufólks. Og ég er, herra forseti, mjög hlynntur þessu. Ég vil að Íslendingar hafi mjög góð laun. En það þarf líka að skoða útgjaldaliðina, herra forseti. Þegar kemur að landbúnaðarvörum greiðum við Íslendingar hæsta verð í öllum heiminum, liggur við, og það bítur í lífskjörin, herra forseti. Hæstv. landbrh. skyldi skoða hvernig stendur á því að landbúnaðarvörur eru svona óskaplega dýrar ef hann hefur svo mikinn áhuga á lífskjörum íslensku þjóðarinnar.