Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 18:29:42 (7594)

2001-05-11 18:29:42# 126. lþ. 120.48 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[18:29]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Með tilliti til aðstæðna hér og þess að um 1. umr. þessa máls er að ræða, þá ætla ég ekki að hafa uppi langa tölu. Ég get vísað til þess sem kom fram í máli hv. þm. Þuríðar Backman og ætla aðeins að bæta þar lítillega við og hnykkja á nokkrum atriðum.

[18:30]

Það fyrsta sem ég hlýt að segja er það að því miður eru niðurstöður starfshópsins og það frv. sem er hér á borðum í talsverðum mæli vonbrigði þó innihaldið sé jákvætt svo langt sem það nær að langmestu leyti. Það er auðvitað ósköp einfaldlega vegna þess að umtalsverðar væntingar voru bundnar við það starf í ljósi þeirra fyrirheita sem gefin hafa verið að undanförnu um að í vændum væru hvort tveggja í senn verulegar raunhækkanir grunnbóta tryggingakerfisins til aldraðra og öryrkja og hins vegar heildstæð endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni og uppstokkun þeirrar löggjafar sem er eins og kunnugt er að stofni til mjög gömul og stagbætt en því miður held ég að verði að segja að hvorugt gangi eftir þannig að hægt sé að segja að það standi undir nafni.

Auðvitað er það svo, herra forseti, að endalaust má deila um viðmiðanir og upphæðir. Menn geta sjálfsagt deilt fram og til baka og seint fengið hina einu sönnu eða réttu niðurstöðu í það hvernig þessir hópar hafi komið út miðað við þróun á vinnumarkaði, almenna launaþróun, þróun meðallauna eða hvort við tölum um þróun lægstu launa sem er næst því að endurspegla þá viðmiðunarhópa sem bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur voru áður miðaðar við. Ég held að eingöngu vönduð úttekt sem tekur til lengri tíma og mælir þetta þannig að val á upphafs- og endapunktum skipti litlu máli, því sé eytt út með því að taka löng viðmiðunartímabil, geti í raun og veru skorið endanlega úr um það. Kannski verður það ekki fyrr en eitthvað líður frá þessum tíma sem við stöndum á í dag sem við sjáum nákvæmlega í raun hvernig þeir hópar sem fengið hafa allan framfærslueyri sinn úr tryggingakerfinu hafa í raun komið út borið saman við þróun á launamarkaði.

Ég held þó að því verði tæpast á móti mælt að frekar hallar á þá en hitt, sérstaklega ef við tökum inn í myndina þær tilraunir sem gerðar hafa verið í almennum kjarasamningum til að lyfta lægstu launum á undanförnum missirum. Að mörgu leyti er það sú viðmiðun sem eðlilegast er að taka, bæði vegna þess að það var sá viðmiðunarhópur sem tryggingabæturnar og atvinnuleysisbæturnar fylgdu áður og svo auðvitað einfaldlega vegna hins að það er næst því að vera samanburðahæft í skilningnum raunveruleg afkoma, raunveruleg laun. Því miður þekkjast enn svo smánarlega lág laun hér á vinnumarkaði að þau eru ekki nema litlu hærri en fullar tryggingabætur, t.d. einhleypings, og það var þetta sem menn voru að reyna á árunum að láta fylgjast að.

Síðan er það, herra forseti, sem kannski skiptir mestu máli, og menn ættu að geta sparað langar ræður og horft ósköp einfaldlega á það, um hvaða raunupphæðir við erum að tala og hver er kaupmáttur þeirra fjárhæða sem menn fá út úr tryggingakerfinu. Hver er afkoma einhleyps ellilífeyrisþega eða einhleyps örorkulífeyrisþega sem hefur ekkert annað sér til framfærslu en tekjur úr tryggingakerfinu, liðlega 72 eða 73 þús. kr. eins og þar stendur í dag? Hver er hún? Það er það sem máli skiptir að lokum en ekki samanburðurinn. Með mælingu á því í ljósi framfærslukostnaðar þegar við horfum til húsaleigu, vöruverðs, matvælaverðs og annarra þátta, sem heldur betur hafa hækkað upp á síðkastið, þá er það veruleikinn sem blasir við þessu fólki að reyna að draga fram lífið á þessum upphæðum og er örugglega engin of sæll af, enda þekkjum við örugglega öll einhvers staðar í umhverfi okkar, kringum okkur, í fjölskyldum okkar eða kunningjahópi einhverja sem búa einmitt við slíkar aðstæður.

Í þessu frv. eru að sjálfsögðu hlutir, herra forseti, sem eru tvímælalaust til mikilla bóta. Með hækkuninni á þessum bótum svo langt sem hún nær er auðvitað of skammt gengið því að þetta mun væntanlega tæpast duga til að hífa upp þessa hópa þannig að þeir verði í grófum dráttum jafnsettir og þeir voru fyrir nokkrum árum borið saman við aðra hópa. Og líka þær kerfisbreytingar sem gerðar eru. Þá vil ég sérstaklega nefna að það að draga á úr þeirri beinu skerðingu atvinnutekna á bætur sem áður var við lýði t.d. hjá öryrkjunum, að færa skerðingarhlutfallið úr þeim 100% sem þetta var gagnvart endaþáttum bótanna eins og sérstöku heimilisuppbótinni er að sjálfsögðu til bóta. Þar eru að vísu hlutir sem þarf að skoða betur og þó að þetta líti ágætlega út á öllum þessum línuritum og gröfum held ég að ástæða sé til að fara sæmilega yfir það, jafnvel fyrir þá sem hafa lengi glímt við að skilja völundarhús jaðaráhrifa í skattkerfi og tryggingakerfi og hvernig þeir þættir spila saman.

Áfram stendur það líka og verður ekki hrakið, herra forseti, að íslenska almannatryggingakerfið er mjög lágtekjumiðað. Það er staðreynd sem við verðum að horfast í augu við. Auðvitað er mér vel ljóst að menn deila stundum um hvort það sé einmitt þannig sem það eigi að vera. Sumir færa fyrir því rök að þetta eigi eingöngu að vera öryggisnet undir botninum hjá þeim sem allra lakast eru settir og ekki eigi að hugsa það sem almennara jöfnunartæki og víðfeðmara eins og gert er í skandinavíska velferðarkerfinu þar sem talsvert önnur viðmið eru lögð til grundvallar. Íslenska kerfið hefur lengi verið mun lágtekjumiðaðra. Því verður ekki á móti mælt. Það er þannig skyldara kannski því sem hefur verið í Finnlandi eða í Norður-Ameríku en skandinavíska módelinu svo vísað sé til þess.

Til viðbótar þessu hafa flestar grunnupphæðir verið og eru flestar grunnupphæðir einfaldlega lægri en þær eru í löndunum í kringum okkur, t.d. í Danmörku. Þar er allverulegt bil á kjörum aldraðra og örykja sem hafa fullar greiðslur úr tryggingakerfinu hér og þar.

Nú geta menn sagt að það sé vissulega þannig að lægstu dagvinnulaun á Íslandi séu lægri en þau eru í Danmörku og það er rétt. En ráðstöfunartekjur heimila eru það ekki að neinu marki og það er vegna þess að launasamsetningin er önnur hér, vinnuvikan er lengri og yfirvinna stærri þáttur í launatekjum almennings en gerist þar þannig að þegar við berum saman hópa aldraða og öryrkja annars vegar og tökum tillit til ráðstöfunartekna eða heildartekna launamanna á Íslandi, þá er þarna mun meira bil á milli en er í nágrannalöndunum. Það er staðreynd.

Með öðrum orðum er það hér við lýði að þeir sem fá tekjur sínar úr tryggingakerfinu taka mið af lægstu dagvinnulaununum, sem eru sem betur fer afar fáir á hér, og allur þorri almennings hefur mun meiri ráðstöfunartekjur gegnum langa vinnuviku, yfirvinnu o.s.frv.

Þetta, herra forseti, tel ég nauðsynlegt að minna á til þess að taka menn svolítið niður á jörðina gagnvart því að hér séu að gerast einhver stórtíðindi í formi þess að hækka verulega rauntekjur eða afkomu þessara hópa.

Herra forseti. Einnig verður að líta til margra annarra þátta og er ekkert komið inn á það í þessu frv. þar sem ekki einu sinni allt sem starfshópurinn skilaði er á ferðinni heldur aðeins hluti af því sem valinn hefur verið út. Þar þarf líka að líta til annarra þátta sem skipta máli í sambandi við afkomu og lífskjör þessara hópa, eins og framfærslukostnaðarins, eins og annarra hluta þess stuðnings sem menn fá. Ég nefni þar hluti eins og bílastyrki, lyfjakostnað, ferðakostnað vegna veitinga og margt annað sem varðar umtalsverðan fjölda í þessum hópum mjög miklu. Þetta þarf líka að skoða. Það er ekki nóg að einblína á upphæðir grunnbótanna svo mikilvægar sem þær eru, heldur þarf að líta til þess hvaða kostnað þær eiga að dekka og hvaða aðrar þarfir þessir einstaklingar hafa og hvernig þeim er mætt, bæði í skilningnum þjónusta og kostnaður.

Það þarf líka, herra forseti, að halda áfram þeirri vinnu sem ég batt vonir við að yrði samhliða þessari endurskoðun almannatryggingakerfisins, að fara yfir samspil trygginganna, lífeyrisréttindanna, skattkerfisins og annarra þátta sem hanga þarna á spýtunni. Þeirri vinnu er að mínu mati ekki lokið og það er ekki teiknuð í sjálfu sér inn í framtíðina nein sú leið sem ég skrifa upp á í þessu efni. Það sem ég fann við fljótan yfirlestur í skýrslu starfshópsins eru einfaldlega nokkrar setningar um að lífeyrissjóðakerfið muni á komandi árum í æ ríkari mæli yfirtaka hlutverk tryggingakerfisins. Það er auðvitað ekki mikil speki að vegna skerðingar tryggingagreiðslna á grundvelli lífeyrisgreiðlna dragi úr greiðslum ríkisins eftir því sem lífeyrisréttindi byggjast upp. En hvernig verður sú skerðing útfærð og hvert verður samspil hennar við skattkerfið? Hver verða frítekjumörkin? Hver verða skattleysismörkin? Það er þetta sem mun ráða úrslitum um lífskjör þessa hóps á komandi árum og áratugum. Í tilviki öryrkjanna er þetta ekki einu sinni rétt vegna þess að stór hluti þeirra er alls ekki að mynda nein lífeyrisréttindi. Gleymum ekki þeim býsna stóra hluta öryrkja sem leggur annaðhvort af stað frá byrjun með mjög óveruleg eða engin lífeyrisréttindi og verður þar af leiðandi áfram algerlega háður því um afkomu sína sem kemur út úr tryggingakerfinu. Það er því miður viss tálsýn, herra forseti, sem er dregin upp með því að vísa í vaxandi lífeyrisréttindi og uppbyggingu lífeyrissjóðanna með þeim hætti sem er að mínu mati gert á vissan hátt í skýrslu starfshópsins með þeim fyrirvara þó, herra forseti, að ég áskil mér rétt til þess að lesa það betur. Þetta er nokkur doðrantur og við höfum ekki haft langan tíma til þess að gera það.

Af hverju, herra forseti, er þetta mikilvægt? Jú, það er fyrst og síðast vegna lífsskilyrða þessara hópa í samfélaginu, það er það. En þetta er gríðarlega stórt mál í mörgu öðru samhengi. Það sem Íslendingar þurfa að fara að átta sig á þó seint sé er að við erum að byrja að horfast í augu við breytta aldurssamsetningu í samfélaginu og aldraðir eru hér í ört vaxandi mæli að verða miklu stærri þátttakendur í samfélaginu sem neytendur þjónustu og sem fullgildir gerendur með hækkandi lífaldri og vaxandi fjölda á þessu aldursskeiði skipta þeir sífellt meira máli. Þeir skipta máli í þeim samfélögum þar sem þeir búa. Sums staðar er það þannig að hlutfall aldraðra er að verða mjög hátt hlutfall af íbúum viðkomandi sveitarfélaga. Það er af ýmsum ástæðum sem menn velja sér sum sveitarfélög umfram önnur þar sem þeim finnst huggulegt að eyða ævikvöldinu. Þar erum við ekki að tala um fáein ár. Við erum kannski að tala um fullfrískt fólk sem lætur af störfum og á fram undan 10--20 ára búsetu í fullu fjöri í viðkomandi sveitarfélagi. Ef þetta er orðinn kannski fjórði eða þriðji partur af íbúunum skiptir ekki litlu máli hver lífsskilyrði þessa hóps eru og hvaða kaupgetu hann hefur. Þetta eru hlutir sem heyrast allt of sjaldan nefndir í umræðum og það er af efnahagslegum ástæðum og samfélagslegum ástæðum af þessum toga sem er líka mjög mikilvægt að átta sig á því. Er það ekki skynsamlegt, bæði réttlátt og sanngjarnt, en líka út frá sjónarmiðum um jöfnuð í samfélaginu að þessir hópar geti verið fullgildir þátttakendur í því í öllu tilliti að bæta kjör þeirra? Ég held að svarið sé tvímælalaust jú því að þá og því aðeins getur þetta fólk, hvort sem það eru öryrkjar eða aldraðir, verið fullgildur þátttakendur í því samfélagi sem það byggir að það hafi eðlilegan kaupmátt, það geti veitt sér svipaða hluti, a.m.k. í einhverjum mæli, og aðrir geta gert í formi neyslu, í formi þess að kaupa þjónustu o.s.frv. Þetta, herra forseti, þurfa menn virkilega að fara að skoða.

Ég veit ekki hvort menn eru meiri eða minni sérfræðingar í líffræðilegum atriðum af þessu tagi og könnunum á því hvernig aldurspíramídinn er að breytast. Það væri ágætt að geta brugðið upp línuritum við svona aðstæður, herra forseti, í þinginu til að útskýra mál sitt. En það mætti þá reyna það með höndunum að líkja aðeins eftir pýramídanum eins og hann hefur verið. Hann hefur verið brattur og sveigst út að neðan, en hann er í leiðinni yfir á að sveigjast út að ofan. Það er það sem er að gerast. Þetta er það sama og menn þekkja frá öðrum löndum, en það er ákveðin tímatöf í kerfinu hjá okkur vegna þess að fæðingartala er hér enn lág en lífaldur hefur hækkað og heilsa þessara hópa batnað. Þar af leiðandi þróast efri hluti píramídans með svipuðum hætti hjá okkur og hann gerir í nágrannalöndunum.

[18:45]

Eitt enn að lokum, herra forseti, um þessar almennu hugleiðingar í tengslum við frv. og það er að við þurfum að átta okkur á að við erum enn á ákveðnu umbreytingaskeiði í þessum efnum. Það er býsna langt í land að jafnvægi skapist sem menn eru að gera skóna að að muni sjálfkrafa leysa tryggingakerfið að verulegu leyti af hólmi á Íslandi og í staðinn komi þá lífeyrisréttindi almennings í gegnum samábyrga uppsöfnunarsjóði. En það eru því miður enn þá um 25 ár í að það kerfi komist í fullt jafnvægi. Það tekur mjög langan tíma. Það tekur um það bil 25 ár. Það var því miður, það er kannski ekki rétt að segja því miður, ekki fyrr en um 1970 sem þetta lagði af stað og ekki fyrr en mun seinna sem sú regla varð almenn að allir tóku að greiða í lífeyrissjóði og enn seinna sem menn tóku að greiða af öllum launum. Þess vegna er lengra en menn kynnu að halda í að uppsöfnun réttinda í lífeyrissjóðunum verði lokið, þeir séu komnir í fullt jafnvægi og réttindin til útgreiðslna á hverjum tíma séu í fullu samræmi við inngreiðslurnar plús ávöxtun af því fé sem þar er inni. Það eru a.m.k. gróft áætlað eða reiknað 15--25, 20--30 ár þangað til það verður. Á meðan við bíðum þess verður að útfæra með einhverjum sanngjörnum og réttlátum hætti samspil tryggingakerfisins og lífeyrisréttindanna og annarra þátta þannig að þessir hópar búi við sambærileg lífskjör. Síðan ítreka ég enn og minni á að ekki má gleyma þeim sem því miður vegna fötlunar eða af öðrum ástæðum komast aldrei út á vinnumarkaðinn og eins og þeim hlutum er fyrir komið í dag mynda þar af leiðandi engin lífeyrisréttindi og eru algerlega háðir þessu kerfi um afkomu sína alla tíð.

Það hefur oft hvarflað að mér að í raun og veru þyrfti að búa þannig um hlutina að þeir hópar yrðu teknir inn í sama kerfið og aðrir í þeim skilningi að fyrir þá yrðu mynduð lífeyrisréttindi með greiðslum gegnum tryggingakerfið þannig að þegar þeir kæmu á eftirlaunaaldur yrðu þeir jafnsettir öðrum óháð aðstæðum sínum á vinnualdri. Það væri a.m.k. ein aðferð sem kæmi sterklega til skoðunar að viðhafa til að ná þessum árangri og gera alla jafnsetta í þessum efnum.

Herra forseti. Þetta læt ég þá nægja um frv. Það er nauðsynlegt að hv. þingnefnd geri hvað hún getur til að skoða ýmis álitamál sem þar eru á ferðinni á þeim skamma tíma sem verður væntanlega þar til stefnu því að að sjálfsögðu vill enginn leggja stein í götu þess að þetta nái fram að ganga og þær úrbætur sem eru fólgnar í frv., of litlar að vísu, því miður, nái fram að ganga, en engu að síður væri æskilegt að nefndin gæti farið ofan í saumana á hlutum. Síðan þarf að líta þannig á, herra forseti, og ég vona að hæstv. ráðherra sé sama sinnis og það hef ég reyndar heyrt hann segja ef ég hef tekið rétt eftir, að hér sé ekki um neinn endapunkt að ræða heldur eingöngu skref á miklu lengri vegferð sem við þurfum að taka til að skapa þeim þjóðfélagsþegnum sem hér eiga hagsmuna að gæta betri lífskjör og almenn skilyrði en þeir búa við í dag.