Frumvarp um lög á verkfall sjómanna

Laugardaginn 12. maí 2001, kl. 17:43:02 (7617)

2001-05-12 17:43:02# 126. lþ. 121.92 fundur 538#B frumvarp um lög á verkfall sjómanna# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 126. lþ.

[17:43]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér hefur verið boðað til þingfundar og Alþingi verið kvatt til starfa. Ég vil vekja athygli á því að vinnudeila sjómanna og útvegsmanna er búin að standa mjög lengi og það er alvarlegt að ekki skuli nú þegar hafa náðst samningar á milli þessara aðila þannig að hjól þessarar atvinnugreinar geti farið að snúast á ný með eðlilegum hætti.

Herra forseti. Spurst hefur út í tengslum við þennan boðaða fund að þar ætti að útbýta frv. til laga um að stöðva þetta verkfall á fiskiskipaflotanum. Ég vil því óska eftir því áður en þessum fundi verður slitið að hæstv. sjútvrh. verði boðaður hingað á fundinn til þess að gera grein fyrir stöðunni í sjávarútvegsmálunum, gera grein fyrir stöðunni í samningamálum milli sjómanna og útvegsmanna þannig að hann geti bæði upplýst þingheim og þjóðina alla um stöðuna í þessu máli, svo alvarlegt sem það er. Ég krefst þess, herra forseti, að áður en þessum fundi verði slitið verði hæstv. sjútvrh. boðaður á fundinn, en sé það ekki hægt verði að loknum þessum fundi boðað til nýs fundar þegar í stað þar sem hæstv. sjútvrh. verði krafinn um að mæta og gera þingi og þjóð grein fyrir stöðunni í sjávarútvegsmálum og samningamálum útgerðarmanna og sjómanna.