Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 13:56:40 (7690)

2001-05-14 13:56:40# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf jafngaman að hlusta á hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. Varðandi það að menn hafi skotið sig í fótinn þá heyrist mér nú hv. þm. gera það sjálfur. Hann skýtur því á loft hvað eftir annað að ríkisstjórnin hafi með yfirlýsingum sínum eyðilagt fyrir samningum sjómanna og útvegsmanna. Ég hef ekki heyrt hv. þm. benda á eitt einasta tilvik þar sem hægt er að staðfæra þessi skot hv. þm. Ekkert hefur komið fram sem ég hef heyrt sem bendir til þess að ríkisstjórnin hafi eyðilagt þessa möguleika. Og að þeir hafi ekki fengið frið. Hvað þarf sá friður að vera langur svo að samningar geti náðst?

Herra forseti. Mér finnst að þegar þingmenn koma fram eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þá gangi það oft hjá hv. þm. út á það að reyna að gera lítið úr andstæðingum sínum og segja að skotið sé í báðar lappirnar, að menn séu talandi sitt á hvað og viti ekkert hvað þeir eru að segja. Staðreyndin er sú, hvað sem segja má um samtök sjómanna og útgerðarmanna sem ég vil segja að séu mjög brýn og góð samtök, að þeim hefur ekki tekist að semja. Það er enginn tilbúningur að það hefur ekki tekist í tíu ár. Það er staðreynd að þeim hefur ekki tekist það og þeim sem stjórna þeim samtökum í dag, sjómannasamtökum Íslands, hefur aldrei tekist að koma einum einasta samningi í gegn á meðan viðkomandi forustumaður hefur verið við stjórn.

Það er sorglegt til þess að vita (ÖJ: Hann er ekki til andsvara hér.) að það skuli gerast (ÖJ: Þú ert að ráðast á fjarstaddan mann.) að heildarsamtök sjómanna eins og þessi geti ekki náð samningum fyrir umbjóðendur sína í áratug eða meira. (Gripið fram í.)